Unnið að starfslokasamningi Jóhanns Haukssonar við Fréttablaðið

Jóhann Hauksson, blaðamaður á Fréttablaðinu, staðfesti við Morgunblaðið í gær að verið væri að ganga frá starfslokasamningi hans. Í Morgunblaðinu á laugardaginn var sagt frá því að ritstjóri og fréttaritstjóri Fréttablaðsins hefðu kallað Jóhann á sinn fund til að tjá honum að hann skyldi hætta pólitískum skrifum fyrir blaðið, þar sem hann þætti blanda persónulegum skoðunum í skrif sín.

"Eftir tvo fundi, þar sem mér var tilkynnt þetta án þess að fá fullnægjandi skýringar, var ljóst af minni hálfu að ég liti á þetta sem vantraustsyfirlýsingu. Það getur vel verið að ritstjórinn líti öðruvísi á það og hann rökstyður þá sitt mál," segir Jóhann. "Umkvartanir dómsmálaráðherra voru nefndar á þessum fundum og það eru einu efnislegu skýringarnar sem ég hef fengið og þetta eru vitanlega heldur kaldar kveðjur."

Býst við að starfa áfram í bransanum

"Það bæri náttúrulega nýrra við ef stjórnmálamenn úti í bæ væru farnir að hlutast til um mannahald á Fréttablaðinu," segir hann. "Ég hef samt auðvitað engar sannanir fyrir því."

Jóhann segir að sér þyki vænt um Fréttablaðið og þyki miður valdi málið því tjóni. Ritstjóri og fréttaritstjóri beri þó mesta ábyrgð í málinu.

"Góður fjölmiðill á að stinga eins og býfluga út um allar trissur og á ekkert að fara á taugum yfir svona hlutum," segir hann. "Það er nú bara mín skoðun."

Jóhann kveðst ekki verða í vandræðum með framhaldið og býst frekar við að starfa áfram í bransanum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert