Hugmynd um olíuframleiðslu á Grundartanga

Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is
ÞAÐ kann að hljóma eins og vísindaskáldskapur en íslenskur vísindamaður segir að með því að framleiða dísilolíu á Grundartanga mætti sjá öllum fiskiskipaflota landsins fyrir eldsneyti og þannig minnka innflutning á olíu um allt að þriðjung.

"Aðferðin gengur í stuttu máli út á að nota einn ofna Járnblendifélagsins á Grundartanga til að tengja saman vetnissameindir og kolefni með notkun sérstakra hvata svo úr verði dísilolía," sagði Þorsteinn I. Sigfússon, prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands, í gær.

"Við höfum þróað þessar hugmyndir með bandaríska vísindamanninum Klaus Lackner, en þær ganga út á að "gleypa" kolmónoxíð (CO) úr ofnunum, tengja það vetni (H2) og búa til gervidísil með efnaformúlu í kringum svokallað Fischer Tropsch-dísil.

Mér sýnist í fljótu bragði að stóri ofninn á Grundartanga gæti nánast annað íslenska flotanum. Hér er um að ræða ofn sem er hægt að loka og það er það sem skiptir máli. Þetta er ævintýralegt og myndi kosta töluverð útgjöld en gæti á móti sparað Íslendingum sem nemur um þriðjungi af olíuinnflutningi til landsins.

Þetta yrði viðbót við vetniskerfið sem við erum að undirbúa með notkun vetnis á bíla. Þá má geta þess að aðferðin er notuð víða um heim í dag við að vinna dísilolíu úr kolum eða náttúrugasi."

Spurður um aðdraganda þessa sagði Þorsteinn að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefði hringt í sig haustið 2003.

"Ólafur sagðist hafa verið beðinn um það af hagfræðingnum Jeffrey D. Sachs að koma á sambandi milli Klaus Lackners, prófessors við Kólumbíuháskóla, og íslenskra vísindamanna," sagði Þorsteinn í gær.

"Hann sagði að prófessor Lackner væri að velta fyrir sér að taka koltvísýring úr andrúmsloftinu og binda hann. Ólafur bað mig svo að ræða við Lackner. Ég fór svo að hitta hann í Bandaríkjunum haustið 2003 en við fórum strax að starfa saman. Árið 2005 stofnaði svo Jarðarstofnun Kólumbíuháskóla "Global Roundtable on Climate Change", eða Samráðsþing um loftslagsbreytingar, þar sem ég varð stofnaðili og hluti af tækniráðgjafahópnum."

Samvinna fyrirtækja mikilvæg

Þorsteinn segir hugmyndafræði þingsins ekki eingöngu snúast um samvinnu háskóla því það leggi einnig áherslu á samstarf við fyrirtæki.

"Þeim tókst frá upphafi að tengja þetta 100 stórfyrirtækjum í Bandaríkjunum sem eru auðvitað mjög leiðandi aðilar í allri umræðu um loftslagsbreytingar," sagði Þorsteinn í gær. "Það er þetta sem er spennandi í nálgun Bandaríkjamanna."

Aðspurður um eðli samvinnunnar segir Þorsteinn að áður en þingið hafi verið sett í gær hafi verið haldin tvö þing í Kólumbíuháskóla og nú væru að verða að raunveruleika hugmyndir um vettvangstilraunir.

"Í janúar komu svo Wallace Broecker, hinn frægi vísindamaður á sviði hafstrauma, og áðurnefndur Lackner," sagði Þorsteinn en einnig komu að þessu vísindamenn við Háskóla Íslands, með Sigurð Reyni Gíslason í broddi fylkingar, og vísindamenn hjá Íslenskum orkurannsóknum og Orkuveitu Reykjavíkur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert