Hvalaskoðunarsamtök Íslands mótmæla harðlega ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að leyfa veiði á 50 hrefnum á þessu ári. Samtökin mótmæla jafnframt þeirri fullyrðingu Hafrannsóknastofnunar að þessi ákvörðun sé í samræmi við hvalarannsóknaráætlun Hafrannsóknastofnunar, sem lögð var fyrir vísindanefnd Alþjóða hvalveiðiráðsins árið 2003.
Í tilkynningu frá samtökunum segir, að sú áætlun hafi gert ráð fyrir að 200 hrefnur, 200 langreyðar og 100 sandreyðar yrðu veiddar á tveimur árum. Hvorki langreyðar né sandreyðar hafi verið veiddar samkvæmt þeirri áætlun og aðeins örfáar hrefnur á ári. „Það er því rangt að halda því fram að þessar veiðar séu í samræmi við tillögur þær sem lagðar voru fyrir vísindanefnd Alþjóða hvalveiðiráðsins til kynningar. Þá er rétt að benda á að tillögur Íslendinga voru aldrei samþykktar af vísindaráðinu né af alþjóða hvalveiðiráðinu,“ segir í tilkynningunni.
Hvalaskoðunarsamtökin árétta jafnframt að Samtök ferðaþjónustunnar og aðalfundir Ferðamálaráðs hafi ítrekað mótmælt hvalveiðistefnu stjórnvalda og farið þess á leit að sú stefna verði endurskoðuð, enda liggi fyrir að veiðarnar hafi þegar skaðað eina vinsælustu afþreyingargrein íslenskrar ferðaþjónustu, hvalaskoðun með beinum hætti.
Hvalaskoðunarsamtökin skora á sjávarútvegsráðherra að hlutast til um að Hafrannsóknastofnun láti af því háttarlagi að heimila veiðar á gæfustu hrefnunum innan hvalaskoðunarsvæða eins og stofnunin hafi ítrekað heimilað á undanförnum þremur árum. Þau gagnrýna jafnframt þá fullyrðingu Hafrannsóknastofnunar „að stærð hrefnustofnsins geti haft veruleg áhrif á afrakstursgetu nytjafiska, þ.m.t. þorsks“.
„Vísindamenn Hafró hafa ítrekað gefið út að veruleg óvissa ríki um fæðusamsetningu hvala. Það vekur því furðu að forsvarsmenn Hafró skuli enn og aftur koma með stórar fullyrðingar um meint áhrif hvala á fiskistofnanna að því er virðist í þeim tilgangi einum að slá ryki í augu almennings,“ segir að lokum í tilkynningunni.