Jón Gerald Sullenberger vonast eftir opinberri afsökunarbeiðni

Jón Gerald Sullenberger hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að niðurstaða ríkissaksóknara, Boga Nilsson, staðfesti að engin grundvöllur hafi verið í ásökum Jóhannesar Jónssonar, kenndan við Bónus, og Einars Þórs Sverrissonar um að Jón Gerald hafi borið ljúgvitni við yfirheyrslur og bæri ábyrgð á vanlíðan hans sl. fjögur ár. Hann vonast til þess að Jóhannes og lögmaður hans biðji sig opinberlega afsökunar.

Eftirlýsingin er annars eftirfarandi:

„Vegna ásakana Jóhannesar Jónssonar og kæru hans þann 8. maí á hendur mér hefur niðurstaða ríkissaksóknara, Boga Nilsson, staðfest að engin grundvöllur var í ásökunum hans og Einars Þór Sverrissonar um að ég hafi borið ljúgvitni við yfirheyrslur og bæri ábyrgð á vanlíðan hans síðastliðin 4 ár.

Ég hef frá fyrsta degi þessa máls sagt satt og rétt frá og mun gera það áfram.

Það að Jóhannes í Bónus sé ekki lengur ákærður hefur ekkert með vitnisburð minn að gera en aðrar haldbærar ástæður hljóta að liggja þar að baki.

Ég hef ekki persónulega ákært hann enda voru þau gögn sem að ég lagði fram í upphafi Baugsmálsins tekin til rannsóknar af hálfu ríkislögreglustjóra og hann gaf út þá ákæru. Þau gögn sem ég hef nú fengið í Baugsmálinu staðfesta að málið er stórt og mjög alvarlegt. Frá því að rannsóknin hófst hafa Baugsmenn fengið tækifæri á því að rægja mig og alla þá sem að þessu máli hafa komið opinberlega. Ég harma að það fólk hefur mátt líða níð og rógburð í fjölmiðlum ár eftir ár.“

Jón Gerald lýkur á þeim orðum að hann vonist til þess að Jóhannes og lögmaður hans, Einar Þór Sverrisson, biðji hann vonandi afsökunar opinberlega á þessu frumhlaupi þeirra. „Það mun vonandi koma í ljós hverjir hafa farið með ósannindi í þessu máli og hverjir hafa sagt rétt og satt frá,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert