Um 54% Íslendinga eru hlynntir því að Íslendingar segi upp varnarsamningnum við Bandaríkin á meðan tæp 25% eru því andvíg, en þetta kemur fram í Gallup könnun sem var gerð fyrir Helga Hjörvar, þingmann Samfylkingarinnar.
Svipað margir karlar og konur eru hlynnt því að samningnum verði sagt upp samkvæmt könnuninni, eða 52,3% kvenna á móti 55,8% karla.
Sé litið til stjórnmálaflokka þá eru stuðningsmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hlynntastir því að varnarsamningnum verði sagt upp eða 81,7%. Næst mesti stuðningurinn mælist hjá Frjálslyndum eða 68,8%. Stuðningur Samfylkingarinnar er einni prósentu minna en hjá Frjálslyndum, og hjá Framsóknarflokknum eru 58,9% því fylgjandi.
Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins er síst hlynntir uppsögn samningsins af öllum flokkum, en samkvæmt könnuninni eru 41,5% þeirra því meðfylgjandi.
Könnunin var gerð 25. maí til 6. júní sl. og var úrtakið 1.350 manns á öllu landinu á aldrinum 16-75 ára. Heildarsvarhlutfall var 61,1%.