Alcan Inc., fjölþjóðafyrirtækið sem Alcan álfyrirtækið í Straumsvík er hluti af, sendi frá sér fréttatilkynningu í dag vegna óhappsins í álverinu í gær þar sem segir að taka muni þrjá til fjóra mánuði að hefja álframleiðslu aftur í kerskála 3. Á meðan muni tapast framleiðsla upp á 20.000 tonn af áli sem sé þó minna en eitt prósent af ársframleiðslu Alcan álvera í heiminum. Öll kerin í kerskála 3 eru komin úr rekstri.
Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Alcan á Íslandi, segir ekki ljóst á þessu stigi hversu miklir fjármunir glatist vegna þessa en ljóst að það hlaupi á hundruðum milljóna króna. Það sé ekki óvarlegt að tala um milljarða ef allt er til tekið en líklega verði tapið á annan milljarð króna.