Á fyrsta fundi nýs Umhverfisráðs Reykjavíkur var meðal annars lögð fram tillaga að breytingu á samþykkt um hundahald í Reykjavík. Lagt er til að banni við hundahaldi verði aflétt í borginni og það leyft að uppfylltum sömu skilyrðum og nú er. Breytingarnar yrðu felldar inn í gildandi samþykkt um hundahald í Reykjavík nr. 52/2002. Hundahald verði heimilað í Reykjavík að fengnu leyfi og uppfylltum skilyrðum. Á fundinum var jafnframt kynning gerð á áðurframkomnum hugmyndum um gerð Sundabrautar. Önnur kynning var um gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og bókanir þá skráðar. Meirihlutinn bókaði að mislæg gatnamót á Miklubraut og Kringlumýrarbraut verði öruggari og anni umferðinni betur en sú lausn sem nú er á þessum gatnamótum. Gatnamótin eiga jafnframt að vera örugg lausn sem býður upp á góða möguleika fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
Í bókun minnihlutans kom meðal annars fram, að Vinstri grænir og Samfylking telja að þær breytingar, sem gerðar voru á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar á síðasta ári, þjóni vel tilgangi sínum, hafi t.d. aukið umferðarflæði um gatnamótin og stóraukið umferðaröryggi. Fram kom í bókun minnihlutans að mislæg gatnamót á þessum stað muni flytja umferðarálag á nærliggjandi gatnamót, s.s. við Lönguhlíð og Háaleitisbraut.
Aðgerðir gegn mávum
Á fundinum var einnig kynning meindýravarna borgarinnar vegna vargfugls á Tjörninni. Meirihlutinn setti fram tillögu um hertar aðgerðir til að fækka mávi en minnihlutinn taldi aftur á móti óþarft að Reykjavíkurborg ráðist ein í sérstaka herferð gegn mávum og lagði áherslu á samræmdar aðgerðir með Sambandi sveitarfélaga. Farið var fram á frestun og var fallist á hana en bókað að gert yrði ráð fyrir „því að meindýraeyðar borgarinnar haldi uppteknum hætti og losi borgarbúa við vargfugl í eins miklum mæli og mögulegt er. Tillaga um sérstakt átak í þeim efnum, og fræðslu fyrir borgarbúa, verður tekin fyrir á næsta fundi [10. júlí].“