Yfirlýsing frá borgarstjórnarflokki VG í Reykjavík

Eftirfarandi yfirlýsing hefur borist frá borgarstjórnarflokki VG í Reykjavík

„Á fundi umhverfisráðs í vikunni kom fram að máfar, einkum sílamáfar virðast leita í meira mæli inn í borgina í leit að æti nú en undanfarin ár þar sem lítið væri um síli í sjónum. Talsvert hefur verið kvartað til umhverfissviðs borgarinnar af þessum sökum. Undanfarin ár hafa meindýraeyðar borgarinnar skotið u.þ.b. 7.000 fugla á ári en jafnframt hefur starfað samráðsnefnd á vegum sveitarfélaga á Suðvesturlandi með það að markmiði að finna leiðir til að halda fjölda máfanna í skefjum og frá byggð.

Á fundi umhverfisráðs lagði meirihlutinn fram tillögu um mikið átak í drápi á máfum, þar sem gert var ráð fyrir að upp undir 12.000 fuglar yrðu skotnir á hverju ári. Tillagan hafði ekki verið auglýst í dagskrá. Sú aðferð sem meirihlutinn beitir í málinu er þannig ekki til marks um fagleg eða lýðræðisleg vinnubrögð auk þess sem aðgerð af þessu tagi á ekki að ákveða í snarhasti á einum fundi, heldur í samráði við sérfræðinga og aðra hlutaðeigandi.

Vinstri græn telja stórkarlalegt átak í drápi máfa með skotveiðum eða eiturútburði ekki endilega vera einu eða réttu leiðina til að fækka þessum fuglum í byggð. Sá stofn sílamáfa sem hér um ræðir telur u.þ.b. 100.000 fugla sem koma víðsvegar að (m.a. frá Akranesi og Miðnesheiði, þar sem um 30 þúsund pör verpa), svo alls ekki er víst að skotveiðiátak á vegum Reykjavíkurborgar einnar hefði mikil áhrif. Vel má vera að slíkt kæmi að einhverju gagni, en við teljum mikilvægt að vinna málið í samhengi við aðra áhrifaþætti, s.s. að gera borgarbúa meðvitaða um að henda ekki æti á almannafæri og draga úr brauðgjöfum við Tjörnina."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert