Lagt til að stofnuð verði þjóðaröryggisdeild á Íslandi

mbl.is/Jim Smart

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur kynnt í ríkisstjórn matsskýrslu um hryðjuverkavarnir á Íslandi, sem unnin var af dr. Niels Bracke lögfræðingi og Gerd van den Borg lögregluforingja, sérfræðingum Evrópusambandsins í lögreglu- og hryðjuverkamálum.

Sérfræðingarnir dvöldust hér á landi 20. til 24. mars 2006 og ræddu við stjórnmálamenn, ráðuneyti, ríkissaksóknara, lögreglu, landhelgisgæslu og fulltrúa björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila. Í skýrslu sinni lýsa þeir íslenska stjórnkerfinu og þó sérstaklega því, sem lýtur að öryggismálum og löggæslu.

Í skýrslunni er vakin athygli á því, að hér á landi séu engar reglur um beitingu sérstakra rannsóknarúrræða, einkum forvirkra, sem öryggisþjónustur annarra landa beiti venjulega áður en til opinberrar rannsóknar lögreglu eða á vegum dómstóla komi, og séu því forvirkar aðgerðir óheimilar að íslenskum lögum. Þá geti íslensk stjórnvöld ekki átt samskipti við evrópskar stofnanir, þar sem fulltrúar öryggisstofnana hittast til að ráða ráðum sínum eða verið í tengslum við þá miðstöð Evrópusambandsins, sem greinir og miðlar upplýsingum um hættu á hryðjuverkum.

Mælst er til þess við íslensk yfirvöld að þau íhugi að koma öllum slíkum verkefnum saman hjá einni stofnun, helst með nýrri þjóðaröryggisdeild innan embættis ríkislögreglustjóra, undir yfirumsjón dómsmálaráðuneytisins.

Lagt er til, að sameiginlega (á vegum bæði dómsmála- og utanríkisráðuneyta, ríkislögreglustjóra, lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli og ríkissaksóknara) verði samin drög að löggjöf um forvirk verkefni og störf hinnar miðlægu deildar, heimildir hennar og takmörk, og hvernig eftirliti verði háttað með henni, bæði í daglegum störfum hennar og af hálfu alþingis.

Þegar sérfræðingarnir voru hér á ferð, hafði frumvarp dóms- og kirkjumálaráðherra um nýskipan lögreglumála og greiningardeild hjá embætti ríkislögreglustjóra og eftir atvikum öðrum lögregluembættum, ekki verið samþykkt á Alþingi, en það var síðan gert 2. júní 2006. Í matsskýrslu sinni víkja sérfræðingarnir að efni frumvarpsins um greiningardeild lögreglu á þennan hátt:
„Tekið er undir tillögur Framkvæmdanefndar um framtíðarskipan löggæslu hvað varðar hina nýju skipan og sameiginlega rannsóknarábyrgð ríkislögreglustjóra og hinna nýju umdæmislögreglustjóra í sérstökum afbrotatilvikum. Leggja verður þó áherslu á að valdheimildir til baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi af innlendum eða erlendum toga, ber að fela hinni nýju þjóðaröryggisdeild ríkislögreglustjóraembættisins einni. Þetta ætti að stuðla að því að reynsla, sem aflað er á forvirku stigi við upplýsingasöfnun og samsvarandi rannsóknir á þessu sérstaka sviði, safnist á eina hendi,“ að því er segir í fréttatilkynningu.

„Þar sem skipan öryggismála á Íslandi hefur sætt talsverðum breytingum á síðari árum hvað snertir baráttu gegn hefðbundnum og venjulegum afbrotum, eru öryggismál landsins í grundvallaratriðum afar vel skipulögð og jafnvel til fyrirmyndar í einstökum atriðum. Þetta almenna álit fær stoð af tölfræðilegum gögnum um löggæslu, sem staðfesta að glæpir eru tiltölulega fátíðir.

Til baráttu gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi og einnig til að njóta viðurkenningar, sem jafngildur aðili að samfélagi öryggis- og löggæslustofnana innan Evrópusambandsins, er Ísland hvatt til að sjá fyrir fullnægjandi skipulagi, tilhögun og lagalegum grunni, eins og lögð er áhersla á í þeim tilmælum sem fram koma í skýrslu þessari,“ samkvæmt fréttatilkynningu.

Skýrslan hefur í dag verið kynnt fulltrúum þeirra aðila, sem sérfræðingarnir hittu í mars. Tekið verður mið af skýrslunni við þær skipulagsbreytingar, sem verið er að hrinda í framkvæmd á grundvelli laganna um nýskipan lögreglumála.

Dóms- og kirkjumálaráðherra hefur ákveðið að setja á laggirnar starfshóp til að vinna úr tillögum í matsskýrslunni og að þeim ákvæðum nýsettra laga um lögreglumál, sem fjalla um greiningu og áhættumat. Í hópnum sitja Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri, formaður, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sýslumaður á Ísafirði, Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, Arnar Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, en Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, er ritari hópsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert