Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir engri stóriðju- og virkjanastefnu framfylgt af hálfu stjórnvalda þar sem henni hafi lokið fyrir þremur árum. Árétting var tekin fyrir á ríkisstjórnarfundi í dag um „stóriðju- og virkjanastefnu“ stjórnvalda, en áréttingin hefst á því að tekið er fram að „tímabili virkrar stóriðju- og virkjanastefnu íslenskra stjórnvalda sé lokið fyrir nokkru“.
Árið 2003 hafi verið gerðar meginbreytingar á öllu ferli og tilhögun þessa málaflokks en stærsti áfanginn standi enn á Kárahnjúkum og við Reyðarfjörð. Stóriðju- og virkjanastefna er sett í gæsalappir í áréttingunni, og segir Jón það vegna þess að ekki sé lengur um hana að ræða. „Þessi texti er bara til þess að rifja upp að kerfi og tilhögun þessara mála var breytt fyrir þremur árum og umræðurnar í þjóðfélaginu eru byggðar á misskilningi vegna þess að menn hafa ekki fylgst með og Valgerður Sverrisdóttir tók þetta allt mjög skýrt fram í sjónvarpinu fyrir hálfum mánuði,“ sagði Jón í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins um hádegisbil í dag.
Síðan segir í áréttingunni: „Nú eru áherslur iðnaðarráðuneytisins fyrst og fremst á þekkingarsamfélag og samkeppnishæfni, til samræmis við endurmótaða stjórnsýslu. Nú eru þessi mál að mestu leyti á vettvangi sveitarfélags, landeiganda, skipulags- og umhverfisyfirvalda. Iðnaðarráðherra veitir rannsóknarleyfi og virkjanaleyfi en kemur ekki beint að ákvörðunum um framkvæmdir eða rekstur. Hafa ber í huga að nokkur hluti Íslands er friðað land, samkvæmt reglum um slíkt, og tillit er tekið til þess.“
Síðan er lýst þeim virkjanakostum sem nú eru í vinnslu: Kárahnjúkum, Reyðarfirði, Helguvík og jarðhitasvæði á Reykjanesi og Hellisheiði, Húsavík og jarðhitasvæði í Þingeyjarsýslu og að auki eru hugmyndir um stækkun álversins í Straumsvík. Þó sé ekki gert ráð fyrir neinum framkvæmdum á næstu misserum. „Þeir virkjanakostir sem tengjast framangreindum áformum hafa flestir hlotið umfjöllun í fyrsta áfanga rammaáætlunar en fyrirhugað er að öðrum áfanga hennar verði lokið eftir þrjú ár,“ segir að lokum.