Ekki náðist samkomulag í matvælanefndinni um tolla- og samkeppnismál

eftir Egil Ólafsson

egol@mbl.is

MATVÆLANEFND forsætisráðherra leggur til að vörugjöld á matvæli verði afnumin og öll matvæli verði í einu virðisaukaskattsþrepi. Nefndin, sem fundaði í síðasta sinn á þriðjudag, hefur þó ekki náð samkomulagi um lækkun tolla á landbúnaðarvörum eða samkeppnismál. Skýrslu nefndarinnar verður skilað til forsætisráðherra á næstu dögum og er það ríkisstjórnarinnar að taka ákvörðun um breytingar.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagðist ekki geta tjáð sig um starf nefndarinnar fyrr en hann hefði fengið skýrsluna í hendur. "Skýrslan verður vonandi gagnlegt innlegg í þessi mál. Þarna verða væntanlega bæði tillögur og hugmyndir af ýmsu tagi sem við í ríkisstjórninni eigum eftir að fara vel yfir. Það er algerlega ótímabært að ræða hvað getur komið út úr þessari vinnu," sagði Geir.

Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra, skipaði á síðasta ári nefnd til að gera tillögur um lækkun matvælaverðs. Nefndin var skipuð í kjölfar norrænnar skýrslu sem sýndi að matvælaverð á Íslandi væri hærra en í flestum nágrannalöndum okkar.

Kaffi, sælgæti og gosdrykkir gætu lækkað

Kaffi, te, súpur, sultur, ávaxtasafar, rjómaís, sælgæti og gosdrykkir bera vörugjöld. Gjöldin eru mismunandi, frá 8 krónum upp í 400 krónur á kíló eða lítra. Um er að ræða innlenda og erlenda framleiðslu, en af innlendu framleiðslunni munar mest um gos og safa.

Stærstur hluti matvæla er í 14% virðisaukaskattsþrepi. Sumar vörur sem bera vörugjöld bera þó 24,5% virðisaukaskatt. Matvælanefndin leggur til að öll matvæli verði í lægra þrepinu. Þessar tvær breytingar, afnám vörugjalda og breytingar á virðisaukaskatti, hafa því ekki áhrif á verð á brauði, mjólkurvörum, kjöti og fiski. Allar þessar vörur eru án vörugjalda og bera 14% virðisaukaskatt. Eining er um að leggja til að matur sem er framreiddur á hótelum og veitingahúsum beri framvegis 14% virðisaukaskatt en ekki 24,5%.

Matvælanefndin hefur fjallað um tolla á innfluttum landbúnaðarvörum og kröfur verið um að þessir tollar verði lækkaðir. Ekkert samkomulag hefur náðst um þetta atriði. Sömuleiðis voru ræddar leiðir til að auka samkeppni í mjólkuriðnaði með því að banna mjólkursamlögum samstarf um verkaskiptingu. Ekki náðist heldur samkomulag um þetta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert