Minnihlutinn í borgarstjórn greiddi atkvæði gegn því að starf jafnréttisráðgjafa væri lagt niður hjá Reykjavíkurborg í borgarráði í dag. Borgarstjóri lagði fram tillögu þess efnis í kjölfar þess að Hildur Jónsdóttir sem verið hefur jafnréttisráðgjafi Reykjavíkurborgar sagði starfi sínu lausu.
Í stað embættis jafnréttisráðgjafa verður stofnað embætti mannréttindafulltrúa sem starfa mun með nýrri mannréttindanefnd borgarinnar.
Stofnun mannréttindanefndar var ákveðinn í vor og var áskilið að auk jafnréttisfulltrúa yrði ráðinn annar starfsmaður til að sinna þeim auknu verkefnum sem af breytingunni leiða. Á fundi borgarráðs í dag var meirihlutinn hins vegar ófáanlegur til að gefa afdráttarlausar tryggingar fyrir því að þetta gengi eftir, samkvæmt upplýsingum frá Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar í borgarráði.
Samþykkt borgarráðs og bókun stjórnarandstöðunnar:
Lagt fram bréf Hildar Jónsdóttur, jafnréttisráðgjafa, þar sem hún segir starfi sínu lausu. Jafnframt lagt fram bréf borgarstjóra frá 12. þ.m. um niðurlagningu starfsins með tilkomu starfs forstöðumanns mannréttindaskrifstofu.
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri-grænna og Frjálslyndra óska bókað:
„Við teljum mikilvægt að við stofnun mannréttindanefndar og starfs mennréttindaráðgjafa verði starfssviðið aukið og jafnframt tryggt að kynjajafnréttismál fái ekki minni sess í borgarkerfinu en hingað til. Niðurlagning starfs jafnréttisráðgjafa er skref í þveröfuga átt ef ekki fæst trygging fyrir hvernig áfram verði haldið starfi að jafnréttismálum auk nýrra verkefna sem leiða af auknu starfsviði mannréttindanefndar."