Lækka á rekstrarkostnað Strætó um 360 milljónir

mbl.is

Stjórn Strætó bs hefur ákveðið að grípa til aðgerða sem ætlað er að muni lækka rekstrarkostnað sem nemur 360 milljónum króna á ársgrundvelli. Ákvörðunin er tekin í ljósi mikils hallareksturs á síðasta ári og það sem af er þessu ári.

Í fréttatilkynningu kemur fram að ljóst er að umtalsverðar breytingar og endurbætur á leiðakerfi hafa ekki skilað þeirri aukningu farþega og tekna sem reiknað var með. „Farþegum hefur því miður haldið áfram að fækka eins og árin á undan. Þetta hefur leitt til alvarlegrar rekstrarstöðu, sem ekki verður komist hjá að taka á með afgerandi hætti.

Nýkjörin stjórn Strætó hefur haldið nokkra fundi um rekstrarvandann. Nú er ljóst að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, eigendur Strætó, munu ekki leggja fram meira fé til að rétta af reksturinn og viðhalda taprekstri.

Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir eigendur gera þá eðlilegu kröfu að reksturinn sé innan heimilda. Hann segir hækkandi eldsneytiskostnað, aukna verðbólgu, launahækkanir, gengisþróun, en fyrst og fremst fækkun farþega, samfara sívaxandi fjölda bifreiða í einkaeign, vera lykilþætti í erfiðum rekstri fyrirtækisins að undanförnu," að því er segir í tilkynningu. Stjórn Strætó hefur því ákveðið að hefja ekki á ný akstur á 10 mínútna tíðni á stofnleiðum, eins og var í síðustu vetraráætlun. Til að vega upp á móti fækkun ferða á stofnleiðum verður aukavögnum bætt við á mestu annatímum. Stofnleið S5 verður lögð niður en breytingar gerðar á þjónustutíma leiðar 19 til mótvægis.

„Þessar aðhaldsaðgerðir munu óhjákvæmilega leiða til skerðingar á þjónustu og þykir okkur það mjög miður. Við treystum því að viðskiptavinir Strætó sýni því skilning að eigendur byggðasamlagsins geti ekki veitt fjármagni til fyrirtækisins umfram heimildir á tímum nauðsynlegra aðhaldsaðgerða á vegum ríkis og sveitarfélaga,” segir Ásgeir Eiríksson, í fréttatilkynningu.

Eigið fé Strætó neikvætt

Stofnfé Strætó var 100 milljónir króna á miðju ári 2001. Eigið fé var komið í 180 milljónir króna í árslok 2004. Um síðustu áramót var eigið fé hins vegar orðið neikvætt um 18 milljónir króna eftir 200 milljónir kr. tap á árinu 2005.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert