Regluleg mánaðarlaun 244 þúsund krónur að meðaltali á síðasta ári

mbl.is

Árið 2005 voru regluleg mánaðarlaun á almennum vinnumarkaði að meðaltali 244 þúsund krónur, heildarmánaðarlaun 315 þúsund krónur og árslaun 4,2 milljónir króna. Heildarfjöldi greiddra stunda að baki árslaunum var að meðaltali 45,7 klst. á viku. Regluleg mánaðarlaun hækkuðu um 10,4% frá fyrra ári, heildarmánaðarlaun um 12,6% og árslaun um 12,9%. Þetta kemur fram í launakönnun Hagstofu Íslands. Niðurstöðurnar byggja á upplýsingum frá fyrirtækjum í launakönnun Hagstofunnar sem starfa í iðnaði, mannvirkjagerð og byggingarstarfsemi, verslun og viðgerðarþjónustu og samgöngum og flutningum.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að þessar niðurstöður endurspegli mikinn hagvöxt á tímabilinu og vaxandi spennu á vinnumarkaði. Skráð atvinnuleysi var aðeins 2,1% árið 2005 samanborið við 3,1% árið 2004.

„Þegar laun eru könnuð eftir starfstéttum kemur í ljós að stjórnendur voru með hæstu mánaðarlaunin árið 2005 eða 507 þús. kr. að meðaltali. Sérfræðingar komu næstir með 430 þús. kr. að meðaltali á mánuði. Tæknar og sérmenntað fólk fylgdu svo á eftir með 392 þús. kr. Iðnaðarmenn voru með 368 þús. kr. á mánuði en þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk var með 280 þús. kr. á mánuði. Heildarmánaðarlaun skrifstofufólks voru 262 þús. kr. og verkafólk var með 253 þús. kr. á mánuði að meðaltali.

Fólk á aldrinum 40 til 49 ára fékk hæstu launin samkvæmt könnun Hagstofu en fólk rétt undir tvítugu fékk lægstu launin. Yfirvinnugreiðslur voru mestar hjá iðnaðarmönnum og verkafólki eða um 23-24% sem hlutfall heildarlauna samanborið við aðeins 3% hjá stjórnendum og 4% hjá sérfræðingum," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

Launakönnun Hagstofu Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert