FASTEIGNASALAR eru margir hverjir uggandi vegna aðgerða lánastofnana og stjórnvalda í því skyni að stýra fasteignamarkaðnum. Ganga sumir fasteignasalar, sem Morgunblaðið ræddi við, svo langt að segja að bankarnir séu að rugga fasteignamarkaðnum með handafli með því að lækka lánshlutfall, hækka vexti og birta greiningar þess efnis að fasteignaverð sé á niðurleið. Við þær aðstæður haldi fólk eðlilega að sér höndum. Er það mat viðmælenda blaðsins að svartsýnustu spár greiningardeilda bankanna séu hins vegar stórlega ýktar og benda á að fasteignamarkaðurinn hegði sér allt öðruvísi en hlutabréfamarkaður eða gjaldeyrismarkaður, enda rjúki ekki allir til og selji eignir sínar þegar fréttir berist af því að verð kunni vera að lækka, því einhvers staðar þurfi fólk að búa.
Aðrir vilja meina að greiningardeildir bankanna séu hreinlega ekki með puttann á púlsinum og er í því samhengi t.d. nefnt að útlit sé fyrir að offramboð á fasteignum verði mun meira en fram hafi komið í nýbirtri spá greiningardeildar KB banka. Hafði einn fasteignasali á orði að bankarnir væru eðlilega varkárir í spám sínum vegna þess hve hagsmunir þeirra sjálfra væru miklir á fasteignamarkaðnum.
Ekki viturlegt að taka Íbúðalánasjóð út af markaði
"Mér finnst taugatitringurinn sem greiningardeildir bankanna eru að koma af stað svolítið ýktur, að minnsta kosti á köflum," segir Björn Þorri Viktorsson, formaður Félags fasteignasala, og telur það gagnrýnisvert að lánastofnanir jafnt sem opinberir aðilar séu að reyna að tala fasteignaverðið niður. Bendir hann á að bankarnir verði auðvitað sjálfir að bera ábyrgð gagnvart því fólki sem nýlega hefur keypt húsnæði með allt að 100% lánum.
Að mati Björns Þorra sýna atburðir síðustu daga og vikna að ekki sé viturlegt að fjarlægja Íbúðalánasjóð út af markaðnum og takmarka með því enn frekar aðgang fólks að fjármagni. Segir hann að í þessu samhengi verði stjórnvöld að gera upp við sig hvort húsnæðismál teljist til velferðarmála, því slíkt feli þá í sér að almenningi verði raunverulega gert kleift að fjárfesta í eigin húsnæði.
Óttast að stigið verði svo fast á hemlana að slys hljótist af
Segist Björn Þorri óttast að ástandið nú geti farið að líkjast því sem var fyrir 15-17 árum áður en húsbréfakerfið kom til, en þá var fasteignamarkaðurinn afar sveiflukenndur sem helgaðist af því hversu aðgangur fólks að lánsfé til íbúðakaupa var bæði takmarkaður og sveiflukenndur, en það leiddi, að sögn Björns Þorra, til þess að braskað var með lánsloforð.
Að mati Björns Þorra er allt óðagot og endalausar breytingar á markaðnum afar óheppilegt. "Menn vilja sjá þennan markað í jafnvægi. Sjá hann þroskast og dafna án handstýringar," segir Björn Þorri og tekur fram að í því samhengi sé lykilatriði að aðgengi fólks að fjármagni sé jafnt og stöðugt. Segir Björn Þorri að stíga þurfi varlega á bremsunar í efnahagslífinu. "Því það er hægt að stíga svo fast á hemlana að slys hljótist af og fólk fari hreinlega út um framrúðuna. Menn þurfa að gæta þess að rugga ekki hlutunum of mikið, því það er engum til góðs til lengri tíma litið."
Kaupendamarkaður að komast á
Að sögn Jóns Guðmundssonar hjá Fasteignamarkaðnum er fasteignamarkaðurinn nú um stundir að breytast yfir í kaupendamarkað. Tekur hann fram að sú kúvending sem sé að verða á markaðnum sé hins vegar óvenjubrött, sem helgist af því hve lánshlutfall hefur lækkað og vextir hækkað hratt að undanförnu. Segir hann kúvendinguna samt hafa verið viðbúna því á umliðnum misserum hafi fimm til sex árgangar verið að fjárfesta í húsnæði á ári meðan í venjulegu ári séu aðeins einn til tveir árgangar að fjárfesta í húsnæði í senn. Aðspurður segist Jón ekki myndi ráðleggja fólki að leggja út í kaup á nýju húsnæði fyrr en það hefur selt gamla húsnæðið. Segir hann góð kauptilboð vera í spilunum en ráðleggur fólki að fara sér hægt.
Sverrir Kristinsson, framkvæmdastjóri Eignamiðlunar, segir ekkert óeðlilegt við það að framboð sé meira en eftirspurn nú um stundir eftir gríðarlega mikil viðskipti á fasteignamarkaðnum síðustu misseri. Sverrir setur spurningamerki við það að talað sé um einhvern gríðarlegan samdrátt á fasteignamarkaðnum og spyr við hvað fólk sé að miða. "Er verið að miða við tvö síðustu árin sem eru hugsanlega mestu veltuár í fasteignasölu á Íslandi?" spyr Sverrir og tekur fram að slíkt sé að sínu mati alls ekki raunhæft og að fremur ætti að skoða hlutina yfir lengra tímabil til þess að fá betri heildarmynd.