Lítið selst af sandölum og sumarfatnaði

Regnhlífar hafa oft sést á Íslandi í sumar.
Regnhlífar hafa oft sést á Íslandi í sumar. mbl.is/Ómar

Veðurfarið í sumar hefur haft talsverð áhrif á verslunarvenjur Íslendinga. Samtök verslunar- og þjónustu segja að ef svo fari sem horfi verði sandalar og léttur sumarfatnaður vinsælar útsöluvörur á næstunni. Þá sé greinilega minni sala á viðlegubúnaði í sumar en venjulega og það sama megi segja um grillkjöt og rauðvín. Þá segja SVÞ, að ef marka megi heimsóknir ferðamanna í dagvöruverslanir á landsbyggðinni séu landsmenn minna á ferðinni þetta sumarið en oft áður.

Í fréttabréfi SVÞ segir að í viðtölum við forsvarsmenn verslana komi fram að ekki sé heildarsamdráttur í verslun heldur öllu frekar í einstökum tegundum. Þannig eigi léttur útivistarfatnaður undir högg að sækja vegna hráslagalegs sumars og fólk noti frekar regn- og útivistarfatnaðinn frá því í vetur.

SVÞ segja að veðurfar skipti verslun miklu máli. Bjart veður virðist hafa þau áhrif á neytendur að þeir fara frekar í verslunarleiðangra. Það eigi við jafnt að sumri til, þegar sólin sýni sig, og á vetrum þegar fyrsti snjórinn fellur fyrir jólin og þá aukist viðskiptin í búðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert