Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Strætó bs. segir það rangt hjá Degi B. Eggertssyni, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, að aðildarsveitarfélög hafi svikist um að greiða framlög til Strætó bs. Öll aðildarsveitarfélög hafi að fullu staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun byggðasamlagsins og ekkert aðildarsveitarfélaganna hefði svikist um að greiða framlög í samræmi við launahækkanir vegna nýgerðra kjarasamninga.
Í yfirlýsingu vegna ummæla Dags segir að fjárhagsáætlun Strætó bs fyrir árið 2006 hafi verið afgreidd með bókun þess efnis að „ekki hefði verið tekið tillit til þeirra kostnaðarhækkana sem yrðu í kjölfar kjarasamninga sem voru í burðarliðnum er fjárhagsáætlunin var samþykkt". Hið rétta sé að Strætó bs. hafi ekki verið bættur upp sá kostnaðarauki sem féll til vegna nýrra kjarasamninga í upphafi ársins. „Að einstök aðildarsveitarfélög hafi svikist um að greiða framlögin, eins og haft er eftir Degi B. Eggertssyni, er því beinlínis rangt,“ segir í yfirlýsingunni.
Dagur sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann segir að í ljós hafi komið á fundi borgarráðs að stóran hluta fjárhagsvanda Strætó bs. megi rekja til þess að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur hafi svikist um að greiða framlög í samræmi við launahækkanir vegna nýgerðra kjarasamninga.