Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir fulla ástæðu til að velta fyrir sér til hvers nefnd um matvælaverð hafi verið skipuð miðað við viðbrögð ráðherra í ríkisstjórninni við hugmyndum sem Hallgrímur Snorrason, hagstofustjóri og formaður nefndarinnar, setti fram í skýrslu sinni.
"Forsætisráðherra snýst í raun gegn öllum hugmyndum sem formaður matvælaverðsnefndarinnar setur fram í skýrslu sinni. Þannig telur forsætisráðherra að niðurfelling á vörugjöldum og tollum og lækkun virðisaukaskatts skili sér miklu fremur til heildsala og smásala en í buddu almennings. Neytendasamtökin minna á tvennt í þessu sambandi. Í fyrsta lagi liggur fyrir að þegar virðisaukaskattur var lækkaður í 14% á flestöllum matvælum þá skilaði það sér til neytenda. Í öðru lagi hafa stjórnvöld eftirlitsstofnanir sem geta fylgt því fast eftir að þessar lækkanir skili sér til neytenda. Þá segir forsætisráðherra einnig að flokkur hans vilji, eins og samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn, standa vörð um íslenskan landbúnað og er á forsætisráðherra að skilja að þar með megi ekki hrófla við ofurtollum á innfluttum landbúnaðarvörum.
Landbúnaðarráðherra hefur bent á í fjölmiðlum að það séu ekki aðeins matvæli sem séu dýr hér á landi og nefnir dæmi um verð á lyfjum og fatnaði og að þetta þurfi einnig að skoða. Það er undarlegt að fyrst nú þegar tillögur liggja fyrir um hvernig ná megi niður verði á matvælum skuli landbúnaðarráðherra reyna að eyða umræðunni með þessu. Hvers vegna í ósköpunum kom hann ekki strax með þessar athugasemdir sínar? Þá er furðulegt að réttlæta hátt matvælaverð með þessum hætti," segir Jóhannes í pístli á heimasíðu Neytendasamtakanna.
Jóhannes segir að Neytendasamtökin ætlist til þess að stjórnvöld fari eftir tillögum formanns nefndarinnar um hvernig lækka megi allt of hátt matvælaverð hér á landi. Samtökin minna á að matvælaverð hér á landi er með því hæsta sem gerist í heiminum. Það sé jafnframt skoðun Neytendasamtakanna að það sé ekki endalaust hægt að fara í buddu neytenda til að halda uppi óarðbærri framleiðslu í landinu.