180 tonn af ónýtum bílum fjarlægð frá Garðstöðum

Frá Garðstöðum þar sem ónýtir bílar þekja stórt svæði.
Frá Garðstöðum þar sem ónýtir bílar þekja stórt svæði. mynd/bb.is

Þriðjungur bílaflotans á Garðstöðum í Ögurvík við Ísafjarðardjúp hefur verið fjarlægður. Hreinsunin er liður í hreinsunarátaki Súðavíkurhrepps og hefur verið gerður samningur við Þorbjörn Steingrímsson, eiganda bílanna, um hreinsunina og samningur um að pressa bílanna og flytja á brott.

Ekki tókst að ljúka verkefninu eins og til hafði staðið, en teknir voru 180 bílar og annað drasl á Garðstöðum sem taldi 180 tonn af brotajárni.

„Ástæðuna fyrir því að ekki tókst að klára verkið á Garðstöðum eins og markmiðið var má rekja til mikilla rigningatíðar í vor og fyrra hlutar sumars sem gerði túnin sem bílarnir eru á viðkvæm og því vont að flytja bílanna í Holtasund þar sem þeir voru pressaðir,“ segir Ómar Már Jónsson sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

Í kjölfarið var starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fenginn til að gera úttekt á stöðunni og samkvæmt hans greinagerð eru um 400 bílar eftir á Garðstöðum. Einnig var tekið úr Súðavík um 115 tonn af brotajárni þannig að 300 tonn hafa verið flutt úr sveitarfélaginu af brotajárni.

„Betur má ef duga skal og í ágúst verður sest niður með aðilum Garðstaða og Furu og gerð áætlun um hvernig verkið skuli klárað. Ég geri síðan ráð fyrir því að haustið og veturinn verður notaður í að flytja þá bíla og drasl sem eftir er á jörðinni inn í Holtasund og næsta vor komi pressa vestur og klári verkið,“ segir Ómar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert