Í nýrri skýrslu, sem norska ráðgjafarfyrirtækið Multiconsult hefur gert fyrir félagið Ægisdyr um hugsanleg jarðgöng milli lands og Vestmannaeyja, er niðurstaðan sú að slík göng væru tæknilega framkvæmanleg. Er framkvæmdakostnaður 18 km langra ganga áætlaður 1,65 milljarðar norskra króna eða um 19,4 milljarðar króna, en í þeirri tölu er ekki innifalinn kostnaður vegna nákvæmari rannsókna, hönnunar eða fjármögnunar verksins.
Skýrslan er unnin af Sverre Barlindhaug jarðverkfræðingi, og var tilgangur skýrslugerðarinnar, að fara yfir þær rannsóknir sem hafa verið unnar, m.a. á vegum Vegagerðarinnar, og meta hvaða rannsóknir væru nauðsynlegar.
Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi í Vestmannaeyjum í dag og kom þar fram að forsvarsmenn Ægisdyra telja niðurstöður skýrslunnar sýna fram á það mjög skýrt, að samgönguyfirvöld eigi að leggja mikla vinnu í það á næstunni að skoða jarðgöng milli lands og Eyja og mikilvægt sé, að bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum og samgönguyfirvöld taki höndum saman og sameinist um að ljúka nauðsynlegum rannsóknum á árinu.
Miðað við tölur úr skýrslunni megi áætla, að þegar allur kostnaður hafi verið tekinn inn í verkið muni göngin kosta á bilinu 20-25 milljarða króna. Ægisdyr hafi áður sýnt fram á, að með þeim framlögum sem ríkissjóður greiðir árlega vegna Herjólfs og með tekjum af áætluðu veggjaldi í göngin verði þau greidd upp á um 40 árum. Þá sé ekki tekið tillit til þeirra gríðarmiklu áhrifa sem göngin myndu hafa á samfélagið í Vestmannaeyjum og í nágrannasveitarfélögunum á Suðurlandi. Slagorðið verði: „Ekið til Eyja á 20 mínútum árið 2010”.
Í skýrslunni er gert ráð fyrir að heildarlengd ganganna yrði um 18 km frá Heimaey norðan hafnarinnar og að Krossi í A-Landeyjum. Talið er að jarðfræðilegar aðstæður séu að mestu leyti ákjósanlegar en aðallega þurfi að skoða jarðlög við enda ganganna.
Í skýrslunni segir, að miðað við þá vitneskju, sem liggur fyrir, séu fyrstu 400 metrar ganganna við Kross flóknir vegna setlaga, sem eru um 40 metra þykk ofan á berginu. Næstu 14,6 km ganganna eru áætlaðir gegnum hefðbundið fast berg en síðustu 3 km ganganna eru taldir fara í gegnum laus setlög þar sem bergið þarfnast mjög mikilla styrkinga.
Á grundvelli reynslu úr nokkrum neðansjávargöngum í Noregi og í Færeyjum er vatnsleki inn í göng áætlaður mikill þegar göng er nálægt landi og fjöll þar mjög nærri. Þar sem meginhluti þessara ganga er fjarri háum landmyndunum er vatnslekinn talinn eðlilegur.
Skýrsluhöfundur telur að frekari jarðfræðirannsókna sé þörf áður en hægt sé að leggja drög að hönnun ganganna. Þessar rannsóknir verði að sýna fram á gerð setlaga við gangamunnann landmegin og í bergmassanum í Norðurfjöllunum á Heimaey, þar sem áætlað er að göngin komi upp. Frekari rannsókna á sjávargrunninum milli lands og Eyja sé einnig þörf.
Fram kemur að væntanlega sé heppilegast að bora göngin með hefðbundnum aðferðum en borun með borvélum er ekki talin heppileg. Hins vegar þurfi flóknari og dýrari aðferð við Kross vegna setlaga.