Einar I. Halldórsson, framkvæmdastjóri 101 Skuggahverfis, segir að jarðvegsvinna fyrir 2. áfanga Skuggahverfisins sé hafin og til standi að hefja byggingaframkvæmdir á lóðinni um mánaðamót september og október.
Í öðrum áfanga verða byggð fimm fjölbýlishús og verða íbúðir þeirra 96 talsins. Stærsta húsið verður 20 hæðir og 62 metrar á hæð og verður það hæsta íbúðarhúsnæði landsins. Að sögn Einars er um mjög svipaðar byggingar að ræða og fyrir eru í Skuggahverfinu og hverfisbragurinn verður látinn halda sér. Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.