Lífeyrisgreiðslur til 20% allra örorkulífeyrisþega munu að óbreyttu skerðast eða verða algjörlega felldar niður frá og með 1. nóvember næstkomandi. Kemur þetta til vegna þess að viðkomandi öryrkjar hafa haft hærri tekjur en þeir höfðu áður en þeir urðu fyrir orkutapi en framkvæmdastjóri Landsambands lífeyrissjóða segir að samkvæmt samþykktum lífeyrissjóðanna beri þeim ekki að greiða út örorkulífeyri í slíkum tilfellum.
Greiðslustofa lífeyrissjóða hefur staðið fyrir umfangsmikilli athugun á tekjum öryrkja til að kanna hverjar þær voru áður en örorkan kom til og bera saman við núverandi tekjur. Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landsambands lífeyrissjóða, segir að heildartekjur örorkulífeyrisþega hjá lífeyrissjóðum séu í allmörgum tilvikum umfram þau viðmiðunarmörk sem kveðið sé á um í samþykktum og reglum lífeyrissjóðanna. Til mats á því hvort tekjuskerðing hafi orðið skuli miðað við tekjur sjóðfélagans síðustu árin fyrir orkutapið. Hafi heildartekjur öryrkja í raun hækkað eftir orkutap eigi hann ekki rétt á örorkulífeyri frá lífeyrissjóðunum. „Samkvæmt samþykktum lífeyrissjóðanna eiga sjóðirnir að greiða þeim bótaþegum sem verða fyrir tekjuskerðingu eftir örorkuna. Markmiðið með örorkulífeyrisgreiðslum frá lífeyrissjóðum hefur aldrei verið að viðkomandi örorkulífeyrisþegar geti fengið hærri tekjur eftir orkutap heldur en þeir höfðu fyrir orkutapið," sagði Hrafn í samtali við Morgunblaðið í gær. Þeir öryrkjar sem nú hafi fengið tilkynningu frá lífeyrissjóði sínum um að örorkulífeyririnn verði skertur eða felldur niður hafi hækkað í tekjum vegna greiðslnanna, sé miðað við árin fyrir orkuskerðingu.
14 lífeyrissjóðir munu breyta örorkulífeyrisgreiðslum
Um er að ræða 14 lífeyrissjóði sem breyta munu örorkulífeyrisgreiðslum með þessum hætti en þeir vilja samræma hvernig örorkulífeyririnn er greiddur út. Á undanförnum árum hefur hlutfall örorkubóta af greiðslum lífeyrissjóðanna farið vaxandi og er örorkulífeyrir nú allt að 44% af heildargreiðslum einstakra sjóða. Hrafn segir að sjóðirnir fari fyllilega eftir þeim reglum sem settar hafi verið um starfsemi þeirra og þeir hafi ekki óskað eftir endurgreiðslum á þeim lífeyri sem ofgreiddur hafi verið. „Fólk hefur tíma til 1. nóvember til að koma með leiðréttingar sem skýrt geta hvers vegna það hafði svo lág laun á viðmiðunartímabilinu fyrir orkutapið," segir Hrafn. Hann segir að reynt hafi verið að hafa samráð við Öryrkjabandalagið vegna breytinganna en án árangurs.