Spurður hvort ekki liggi á að nefndin taki afstöðu til málsins vegna stöðunnar í Líbanon bendir Halldór á að ríkisstjórnin hafi ritað utanríkisráðherra Ísraels bréf og Íslendingar hafi staðið að ályktun Evrópusambandsins um málið. "Þar kemur okkar skoðun glöggt fram," segir hann.
Hann segir tillögu sína hafa verið þríþætta. Í henni hafi verið vísað í fyrri samþykktir Alþingis um deilur Ísraels og Palestínumanna frá 18. maí 1989 og 30. apríl 2002, en Alþingi hafi sjálft mótað talsvert stefnu Íslands í þessum efnum, ekki síst með þessum tveimur samþykktum. Sú fyrri hafi verið býsna framsækin á sínum tíma, "en þar var Ísland að skipa sér í fremstu röð ríkja sem viðurkenndu sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og rétt flóttamanna til að snúa til baka og mælti með vinsamlegum samskiptum við PLO [Frelsissamtök Palestínu]", segir Steingrímur.
Í tillögunni hafi verið lagt til að utanríkismálanefnd krefjist þess að Ísraelar falli án skilyrða og tafarlaust á vopnahlé og jafnframt að ríkisstjórnin beiti sér á alþjóðavettvangi fyrir hinu sama og berjist m.a. fyrir því að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna verði kallað saman.