Tillaga um að krefja Ísraela um vopnahlé ekki samþykkt

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is
Málefni Ísraels og Líbanons voru rædd á fundi sem haldinn var í utanríkismálanefnd Alþingis í gær. Að sögn Halldórs Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokks og formanns nefndarinnar, var fundurinn boðaður að ósk Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna, sem sæti á í nefndinni. Steingrímur lagði fram tillögu á fundinum sem fól m.a. í sér að utanríkismálanefnd krefðist þess að Ísraelar féllust án skilyrða og tafarlaust á vopnahlé og hættu öllum hernaðaraðgerðum í Líbanon og á sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna. Tillagan var ekki samþykkt á fundinum. Segir Halldór að eftir hann hafi verið ákveðið að hittast á nýjan leik. Ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um hvort utanríkisráðherra verði boðaður á næsta fund nefndarinnar.

Spurður hvort ekki liggi á að nefndin taki afstöðu til málsins vegna stöðunnar í Líbanon bendir Halldór á að ríkisstjórnin hafi ritað utanríkisráðherra Ísraels bréf og Íslendingar hafi staðið að ályktun Evrópusambandsins um málið. "Þar kemur okkar skoðun glöggt fram," segir hann.

Bréfið til ísraelska utanríkisráðherrans meingallað

Steingrímur J. Sigfússon segist helst hafa viljað að nefndin hefði látið eitthvað til sín taka í þessu máli nú því skelfilegir atburðir eigi sér stað í Líbanon, en málið sé þó áfram á dagskrá hennar.

Hann segir tillögu sína hafa verið þríþætta. Í henni hafi verið vísað í fyrri samþykktir Alþingis um deilur Ísraels og Palestínumanna frá 18. maí 1989 og 30. apríl 2002, en Alþingi hafi sjálft mótað talsvert stefnu Íslands í þessum efnum, ekki síst með þessum tveimur samþykktum. Sú fyrri hafi verið býsna framsækin á sínum tíma, "en þar var Ísland að skipa sér í fremstu röð ríkja sem viðurkenndu sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og rétt flóttamanna til að snúa til baka og mælti með vinsamlegum samskiptum við PLO [Frelsissamtök Palestínu]", segir Steingrímur.

Í tillögunni hafi verið lagt til að utanríkismálanefnd krefjist þess að Ísraelar falli án skilyrða og tafarlaust á vopnahlé og jafnframt að ríkisstjórnin beiti sér á alþjóðavettvangi fyrir hinu sama og berjist m.a. fyrir því að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna verði kallað saman.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert