Mikil reiði meðal mótmælenda í garð löggæslunnar vegna meints harðræðis

Mótmælendur við Kárahnjúka.
Mótmælendur við Kárahnjúka. mbl.is/Gunnar Gunnarsson
Eftir Steinunni Ásmundsdóttur steinunn@mbl.is
"VIÐ erum dreifð um allt núna og engin sérstök forysta fyrir hópnum þó við höfum lauslegt samband innbyrðis," sagði einn breskra mótmælenda Kárahnjúkavirkjunar í samtali við Morgunblaðið á Egilsstöðum í gærkvöldi. "Við höfum rætt það að halda einhvers konar sameiginlegan fund og ráða ráðum okkar, en af því hefur ekki orðið ennþá."

Um 50 mótmælendur af 17 þjóðerni eru nú á Egilsstöðum og víðar á Héraði eftir að lögregla leysti upp mótmælabúðirnar við Lindur. Aðrir höfðu yfirgefið búðirnar í kjölfar aðgerða við Desjarárstíflu, þegar 17 mótmælendur voru fluttir þaðan til yfirheyrslu á Egilsstöðum og sleppt að þeim loknum. Eitthvað af fólkinu er farið til Reykjavíkur, hluti af hópnum fer út með Norrönu á morgun og búast má við að aðrir þeir útlendingar sem eftir verða fari fljótlega af landi brott.

Viðmótið hefur gjörbreyst

Viðmælendum verður tíðrætt um að lögregla hafi gengið harkalega fram gagnvart fólki sem tengist mótmælunum á einhvern máta.

"Framkoma löggæslunnar hefur gjörbreyst frá því í fyrrasumar, en þá tók ég einnig þátt í tjaldbúðum mótmælenda við Kárahnjúka," segir einn Bretanna. "Í þeim löndum sem við komum frá ríkir lýðræði þar sem samfélagið gefur lögreglu ákveðið vald sem byggt er á lagasetningum sem samfélagið hefur ákvarðað. Því miður verður að segjast eins og er að lögreglan hér hefur komið fram við okkur af fádæma hörku og virðingarleysi, þeir bera ekki virðingu fyrir okkur sem borgurum, gestum í landi sínu eða sem manneskjum. Lögreglan virðist telja að hún geti í framgöngu sinni sýnt ruddaskap og einstrengingshátt, neitað að gefa skýringar á aðgerðum sínum og réttlætt framkomu sína með því að við séum á einhverjum stöðum sem við eigum ekki að vera á. Við munum kæra þá lögreglumenn sem hafa beitt okkur líkamlegu ofbeldi og ræða þessi mál við fjölmiðla í okkar heimalöndum þegar þangað verður komið. Við erum bæði í sambandi við íslenska lögmenn og lögmenn heima og munum ekki láta hér við sitja," sagði Bretinn, sem ekki vildi láta nafns síns getið.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert