Við anddyri aðseturs Landsbankans fyrir ofan gjána í Hamraborg í Kópavoginum varð það atvik í vikunni að roskin kona sem þar átti leið um fékk útidyrnar í síðuna og skelltist upp að vegg. Konan lemstraðist eitthvað við áfallið en taldist óbrotin.
„Við hörmum þetta atvik mjög," segir Sigríður Pálmadóttir, formaður rekstrarfélags fasteignarinnar og hjúkrunarforstjóri hjá Heilsugæslunni, sem einnig er þar til húsa.
„Þessi hurð hefur verið okkur áhyggjuefni frá því að Heilsugæslan flutti hingað inn. Það renna á annað hundrað manns í gegnum þessar dyr daglega og sumir þeirra eru fatlaðir eða aldraðir eða fólk með börn og það tekur þetta fólk oft lengri tíma en aðra að komast í gegn," segir Sigríður og útskýrir að dyrnar séu með sjálfvirkum opnara og lokist því einnig sjálfkrafa, en það er einmitt þegar hurðin lokast skyndilega sem fólk lendir í hættu á að verða fyrir höggi.
„Við erum að skoða ýmsa möguleika til að bæta úr þessu. Það er ekki hægt að hafa hreyfiskynjara því það er hraðbanki í anddyrinu sem má því ekki opnast sjálfkrafa um miðja nótt þegar fólk tekur út peninga. Eins höfum við reynt að stilla opnunartíma hurðarinnar, þ.e. hversu lengi hún stendur opin í hvert skipti. Best væri að skipta um dyr þarna en til þess þarf að fá samþykki frá arkitekt hússins," segir Sigríður. Þessi mál standi vonandi öll til bóta.
Þá bendir Sigríður á að ef fólk styðji á hnapp sem opni hurðina sjálfvirkt þá haldist hún opin í ákveðinn tíma, óháð því hvort hún sé þegar opin þegar ýtt er á hnappinn. Þessi tími ætti svo að nægja fólki að komast slysalaust inn um dyrnar.