Ung íslensk kona, Rebekka Guðleifsdóttir, hefur vakið alþjóðlega athygli fyrir ljósmyndir, sem hún hefur birt á opna myndavefnum Flickr.com á netinu. Fjallað hefur verið um myndir hennar í þýska tímaritinu Spiegel og breska blaðinu Observer og kemur þar fram, að Rebekka hefur gert samning við Toyota um að taka myndir fyrir auglýsingar.
Í grein Observer kemur fram, að fyrir ári hafi Rebekka enn verið að læra á Canon Digital Ixus myndavél sem hún keypti. Hún hafði birt nokkrar af teikningum sínum á Flickr og ákvað nú að birta ljósmyndir einnig. Þær vöktu strax viðbrögð og Rebekka keypti nýja myndavél og birti fleiri myndir á netinu. Nú hefur netsíða hennar fengið 1,6 milljónir heimsókna og er vinsælasta síðan á netsvæði Flickr.
„Netið veitir listamönnum tækifæri, hefur Observer eftir Rebekku, sem er 28 ára og býr í Hafnarfirði. „Það er mun auðveldara að koma verkum á framfæri. Ísland er lítið samfélag þar sem 300 þúsund manns búa og það er erfitt að koma sér á framfæri en með þessum hætti er hægt að ná til mun fleiri."
Myndir Rebekku eru margar af henni sjálfri og sonum hennar tveimur, sem eru 6 og 8 ára. Hún vinnur lengi við hverja mynd í myndvinnsluforriti og segist nota myndavélina eins og málarapensil eða léreft en hún stundaði myndlistarnám um tíma.
„Ég bý til margar óvenjulegar sviðsmyndir sem líta út fyrir að vera raunverulegar og fólk þarf að velta þeim fyrir sér. Ég er spurð að því hvernig ég næ fram litum og dýpt í myndunum. Svarið er að ég vinn við myndirnar á hverjum degi klukkustundum saman. Ég er ekki götuljósmyndari sem fer og tek myndir af öllu sem ég sé."
Á Flickr.com láta lesendur í ljósi álit sitt á myndum sem þar birtast og um Rebekku hefur verið sagt að hún sé listamaður eins og Björk og hver ljósmynd hennar sé listaverk. Blaðið The Wall Street Journal sagði hana nýlega vera í hópi áhrifamesta fólks hinna nýju opnu fjölmiðla ásamt Christine Dolce, sem er með einn vinsælasta vefinn á vefsvæðinu MySpace, og Judson Laipply, sem birtir vinsæl myndbönd á YouTube. Rebekka hefur nú unnið verkefni fyrir íslensk tímarit og mun taka myndir fyrir Toyota á Íslandi í september. Þá ætlar hún bráðlega að opna verslun á netinu.