Alcoa Fjarðaál hyggst kæra mótmælanda

Starfsmannaþorp Fjarðaáls.
Starfsmannaþorp Fjarðaáls. mbl.is/Kristín Ágústsdóttir

Alcoa Fjarðaál undirbýr kæru á hendur mótmælanda sem fór í leyfisleysi inn á byggingasvæði fyrirtækisins á Reyðarfirði í morgun. Með framferði sínu stofnaði hann bæði sjálfum sér og starfsmönnum á svæðinu í hættu.

Um 1400 manns eru nú að vinna á byggingasvæðinu sem getur verið mjög hættulegt þeim sem ekki þekkja þar aðstæður. Enginn fær að fara inná byggingasvæðið nema hann hafi fyrst kynnt sér öryggisreglur Bechtel, en það er verktakinn sem byggir álverið. Mótmælandinn klippti vírgirðingu til að fara inná svæðið og stöðvaði vinnu þar í um tvær klukkustundir.Mótmælandinn var beðinn um að hverfa á brott, en sinnti því ekki og þess vegna var lögregla kölluð til. Lögmaður fyrirtækisins er að fara yfir málið.

Alcoa Fjarðaál og önnur fyrirtæki sem eiga aðild að framkvæmdunum á Austurlandi áttu í vor fundi með lögreglu og Íslandsvinum þar sem farið var yfir aðgerðir sumarsins, einkum fyrirhugaðar fjölskyldubúðir Íslandsvina. Miðuðu umræður að því að ekki kæmi til árekstra milli þessara aðila í sumar. Á þessum fundum kom fram að Alcoa Fjarðaál virðir rétt fólks til að tjá skoðanir sínar með friðsamlegum hætti og að fyrirtækið væri tilbúið að auðvelda mótmælendum að koma boðskap sínum á framfæri, meðal annars með því að sjá til þess að þeir gætu komið sér fyrir á svæði við þjóðveginn hjá álversbyggingunni þannig að þeir sæjust sem best. Fulltrúar Alcoa Fjarðaáls greindu frá því að þeir myndu ekki undir neinum kringumstæðum samþykkja að mótmælendur stofnuðu sjálfum sér eða öðrum í hættu með því að fara inná vinnusvæðið á Reyðarfirði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert