Enn eitt Íslandsmetið í jarðgangaborun var sett í síðustu viku þegar svonefndur bor 2 á Kárahnjúkasvæðinu boraði 87 metra á einum sólarhring. Alls tókst að bora 280 metra með bornum í síðustu viku. Fram kemur á heimasíðu Kárahnjúkavirkjunar að fljótlega dragi til tíðinda í aðrennslisgöngunum nálægt Hálslóni þegar starfsmenn Arnarfells og Impregilo mætast og „slegið verði í gegn".
Á Kárahnjúkasíðunni segir að bor 2 hafi verið langafkastamestur boranna þriggja í síðustu viku. Bergið á leið bors 3 var lakara og afköstin í samræmi við það. Færiböndin séu hins vegar áfram að stríða þeim sem stjórna bor 1, sem skýrist af lengd færibandanna, sem eru 15 km, og eðlilegu sliti.
Í lok síðustu viku var eftir 128 metra tappi í aðrennslisgöngunum nálægt Hálslóni sem boraður verður og sprengdur á milli aðganga 3 og 4. Þetta er berg sem upphaflega var gert ráð fyrir að bor 3 færi í gegnum en í fyrra var ákveðið að flýta heildarverkinu með því að snúa bornum við en ljúka þessum tiltekna hluta ganganna á hefðbundinn hátt.
Þá kemur fram að verulegur kraftur hafi verið í efnisflutningum í Kárahnjúkastíflu í síðustu viku. Vantar hlutfallslega lítið upp á að fylla í þar sem upp á vantar næst Fremri Kárahnjúk.