Þetta kemur fram á heimasíðu Alcoa, þar sem skýrt er frá ýmsum verkefnum sem fyrirtækið hafi stutt á undanförnum árum, en þar á meðal má einnig nefna Neistaflug, Þjóðahátíð Austfirðinga, umferðarfræðslu fyrir börn í Fjarðabyggð, loftslagsverkefni Landverndar, Átaksverkefni um fjölmenningu, þróun námsbrautar og kennslustuðning við Verkmenntaskóla Austurlands o.fl.
Inger L. Jónsdóttir, sýslumaður á Eskifirði, sagði að lögreglumennirnir hefðu átt frumkvæði að því að fara á námskeiðið og gert það í eigin frítíma og aðkoma embættisins ekki verið önnur en sú að manna stöður þeirra meðan þeir hefðu verið í burtu.
Lögreglumennirnir hefðu leitað til fyrirtækja og stofnana um styrki til fararinnar og hefðu greinilega þarna hlotið einn styrk frá Alcoa-Fjarðaráli.
Inger sagði aðspurð að það væru skýrar verklagsreglur um það að lögreglan þiggi ekki styrki nema með leyfi viðkomandi lögreglustjóra og þá sé það metið í hvert skipti fyrir sig. "Í þetta skipti var þetta ekkert á vegum embættisins og mér var einfaldlega ekki kunnugt um hvaða styrki þeir fengu," sagði Inger.
Spurð hvort hún teldi ekki óheppilegt að einkafyrirtæki veitti lögreglumönnum styrki í tilfelli eins og þessu, sagði hún að hafa þyrfti strangt eftirlit með því og mistökin hefðu ef til vill legið í því að bera það ekki undir lögreglustjóra hvaðan styrkirnir kæmu.
Hún sagði að lögreglumennirnir hefðu einnig fengið styrki frá fleiri aðilum til fararinnar, þar á meðal frá Fjarðabyggð.