Sigurður Arnalds, talsmaður Kárahnjúkavirkjunar, sagði eftir fund Landsvirkjunar um framkvæmdir við Kárahnjúkastíflu að til greina kæmi að halda tækniráðstefnu í haust, þegar búið væri að hleypa vatni á Hálslón, með formælendum og andmælendum framkvæmdanna. „Mér finnst það mjög vel athugandi og það hefur komið til tals að halda ráðstefnu um þetta seinna í haust þegar allir eru komnir til starfa og hafa þetta þá opið öllum almenningi. Þá yrðu þessi mál rædd og þá verður fyrsti sopinn kannski kominn í lónið og reynsla komin en ekki bara spádómar,“ sagði Sigurður við Fréttavef Morgunblaðsins síðdegis.
Sigurður segir að mörgu leyti skynsamlegra að sjá fyrst hvernig stíflan reynist þegar vatni verður hleypt á, nú sé mikið um spádóma og umræðan snúist um vangaveltur um atburði sem sérfræðingar Landsvirkjunar segi að geti ekki orðið. „Við höldum bara okkar áætlun, sjáum ekki ástæðu til annars og fyllum lónið eins og alltaf hefur staðið til. Umræðan um sprungur byrjaði fyrir tveimur árum síðan og við erum löngu komnir yfir hana í okkar hönnun og öðru og erum að leggja síðustu hönd á mannvirkin. Það á enginn von á öðru en að þetta gangi ágætlega og held að það geti orðið miklu uppbyggilegri umræða í kjölfarið á því."