Stúlkur vinna frekar með námi en piltar samkvæmt nýrri könnun

Stúlkur vinna frekar með námi en piltar og eldri nemendur vinna fremur en yngri nemendur að því er segir í nýrri könnun þar sem launavinna nemenda í framhaldsskólum var könnuð. Þá sýnir könnunin fram á að nemendur sem vinna með námi hafi minni tengsl við skólaumhverfi sitt en þeir nemendur sem ekki vinna með námi. Bent er á að Þetta sé þó fyrst og fremst áberandi hvað varðar nemendur sem vinna meira en 30 klst. á mánuði með náminu.

Könnunin var gerð í þremur framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu í mars 2005. Niðurstöður könnunarinnar hafa nú verið birtar og af þeim má draga almennar ályktanir um vinnu íslenskra framhaldsskólanema segja skýrsluhöfundarnir Hannes Í. Ólafsson, Björk Þorgeirsdóttir og Garðar Gíslason. Þátttökuskólarnir voru Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Kvennaskólinn í Reykjavík og Menntaskólinn í Kópavogi.

Fram kemur að nemendur sem eigi foreldra sem hafa tekið stúdentspróf eða háskólapróf vinni síður með námi en nemendur foreldra sem hafa mest lokið skyldunámi eða iðnnámi segir í niðurstöðum könnunarinnar.

Þá segir að nemendur sem vinna meira en 30 klst. á mánuði taki minni þátt í félagslífi skólans en aðrir nemendur. Þá fara þeir seinna að sofa, þeir eru meira fjarverandi í skólanum og þeir nota minni tíma til heimavinnu.

Könnunin sýnir jafnframt fram á að þeir nemendur sem vinna með námi eyði meira en aðrir nemendur. Hvað varðar beinan kostnað við skólann þá aukast líkur á því að nemendur greiði sjálfir námsbókakostnað í hlutfalli við vinnu með skólanum. Það eru fyrst og fremst nemendur sem vinna meira en 30 klst. á mánuði sem kosta nám sitt segir í niðurstöðunum.

Hópurinn sem vinnur meira en 30 klst. á mánuði á mun frekar bíl en nemendur sem ekki vinna eða vinna lítið, þeir eyða meiru í kostnað af gsm símum, í tóbak og í djamm. Lítill munur er á þeim hópi sem ekki vinnur með námi og hópnum sem vinnur minna en 30. klst. á mánuði.

Í könnuninni voru nemendur spurðir um hvað þeir hefðu eytt mest í og beðnir um að nefna einn til þrjá útgjaldaliði. 802 nemendur nefndu samtals 1927 atriði og voru matur og skyndibitar langoftast nefndir.

Hægt er að skoða könnunina í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert