Segja umfjöllun um störf lögreglumanna við Kárahnjúka ómálefnalega

Landssamband lögreglumanna segir, að mikil umfjöllun hafi að undanförnu verið um störf lögreglumanna við framkvæmd skyldustarfa, m.a. við Kárahnjúka. Segir sambandið, að sú umfjöllun hafi verið einsleit og til þess fallin að draga úr trúverðugleika lögreglumanna og fagstéttarinnar í heild sinni.

„Við framkvæmd lögreglustarfa ber stundum við að valdsbeiting verði nauðsynleg. Er þess þá jafnan gætt að vandlega sé farið að reglum og í samræmi við þær valdheimildir sem lögreglumenn hafa. Það er mjög óviðkunnanlegt hversu mjög ýmsir óviðkomandi aðilar leggja sig fram um að gera störf lögreglumanna tortryggileg við þær aðstæður og grafa ekki aðeins undan starfsheiðri og æru viðkomandi lögreglumanna heldur gerir öllum lögreglumönnum erfiðara að sinna sínum mikilvægu störfum. Gott dæmi er umfjöllun einstaklinga í fjölmiðlum í tilefni af framkvæmd lögreglustarfa við Kárahnjúka en ýmsir virðast draga þá ályktun að þau störf, þrátt fyrir að þau séu framkvæmd á faglegan hátt, sýni fram á að lögreglumenn sinni almennt störfum sínum illa eða að óeðlilegar hvatir búi að baki framgöngu þeirra. Slík ósönn og ómálefnaleg umfjöllun skaðar fagstétt lögreglumanna í heild sinni og kemur í veg fyrir að almenningur fái réttar og eðlilegar hugmyndum um störf lögreglu og þá einstaklinga sem þar starfa. Lögreglumenn á Íslandi eru afar vel menntaðir einstaklingar sem hafa undirgengist erfið og ítarleg próf, tilheyra vandaðri fagstétt og búa við mjög mikið eftirlit með störfum sínum af hálfu yfirmanna, ríkissaksóknara og öðrum stjórnvöldum og sinna störfum sínum af fagmennsku," segir í ályktun Landssambands lögreglumanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert