Rannsókn embættis lögreglunnar á Seyðisfirði og tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík hefur leitt í ljós að telja verður líklegt að kínverskur maður, sem fannst illa leikinn í herbergi sínu í vinnubúðum við Kárahnjúka, hafi veitt sér áverkana sjálfur með naglbít. Maðurinn hefur neitað því við yfirheyrslur. Niðurstaða tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík hefur verið studd með áliti réttarmeinafræðings.
Lögregla, læknir og sjúkralið voru kvödd að svefnskála í vinnubúðum Impregilo við Kárahnjúka sunnudaginn 13. ágúst en þar hafði íbúi í einu herbergjanna komið að félaga sínum í sárum og hafði sá misst mikið blóð. Var hann með áverka á hálsi og höfði. Maðurinn var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á flugvöllinn á Egilsstöðum þaðan sem hann var fluttur með sjúkraflugvél á Landsspítala háskólasjúkrahús í Reykjavík.
Maðurinn sagði að tveir menn hefðu ráðist á hann um nóttina til að ræna hann. Að sögn lögreglu gat hann gat enga lýsingu gefið á mönnunum en sagði þá hafa hulið andlit sín og borið sólgleraugu. Þeir hefðu talað kínversku, þ.e. mandarín sem er grunntungumálið í Kína.
Embætti lögreglustjórans á Seyðisfirði fékk sér til aðstoðar 2 menn frá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík til að rannsaka vettvang. Í tilkynningu frá lögreglunni, sem send var út nú síðdegis, segir að rannsókn hafi leitt í ljós að telja verði líklegt að maðurinn hafi veitt sér áverkana sjálfur með naglbít.
Málsgögn verða send ríkissaksóknara til ákvörðunar að rannsókn lokinni.