Ráðherra neitaði að mæta Steingrími í Kastljósþætti

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, hefur svarað opnu bréfi Steingríms J. Sigfússonar, alþingismanns, til hans vegna Kastljósþáttar Sjónvarpsins í gærkvöldi. Í svarinu kemur fram, að það sé rétt að Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi iðnaðarráðherra, hafi neitað að mæta Steingrími í þættinum og þá hafi umsjónarmenn Kastljós ákveðið að taka viðtal við ráðherrann einan. Viðtal við ráðherra tákni ekki, þó Steingrímur haldi öðru fram, að Ríkisútvarpið bregðist skyldu sinni.

Svar Páls Magnússonar er eftirfarandi:

    Hr. alþingismaður
    Steingrímur J. Sigfússon

    Opið svar:

    Ég bað ritstjóra Kastljóss að svara athugasemdum þínum frá sínu sjónarhorni og sú samantekt fylgir hér á eftir:

      Reykjavík 31. ágúst 2006

      Svar vegna „Opins bréfs” Steingríms J. Sigfússonar.

      Steingrímur J. Sigfússon hefur skrifað Páli Magnússyni, útvarpsstjóra, opið bréf vegna Kastljósþáttar 30.08. Þar gagnrýnir hann ákvörðun Kastljóss um að ræða við Valgerði Sverrisdóttur eina.

      Aðdragandinn er rétt rakinn af hálfu Steingríms. Kastljósið vildi fá hann til að skiptast á skoðunum við Valgerði Sverrisdóttur um greinargerð Gríms Björnssonar og meðferð hennar í iðnaðarráðuneytinu í tíð Valgerðar þar. Það er rétt að ráðherrann neitaði að mæta Steingrími í þættinum og eftir að hafa íhugað málið og ítrekað - en árangurslaust - borið fram þá ósk við aðstoðarmann ráðherra, að ráðherrann myndi ræða við Steingrím, ákvað Kastljós að taka viðtal við ráðherrann einan, enda teljum við að umsjónarmenn þáttarins hafi alla burði til að veita þeim sem hingað koma málaefnalegt og nauðsynlegt viðnám. Það var gert í þættinum.

      Steingrími var tjáð í símtalinu um klukkan 18, að upphafleg áætlun hefði raskast. Engin rök hníga að því að bera þurfi ástæður þess sérstaklega upp við hann til samþykktar, synjunar eða annars.

      Kastljós hefur að undanförnum oftsinnis fjallað um málefni Kárahnjúkavirkjunar, ýmist með viðtölum eða rökræðum. Ekki er með nokkrum hætti, hægt að halda því fram að sú umfjöllun hafi gengið gegn skyldum Ríkisútvarpsins um óhlutdræga umfjöllun. Að auki verður að halda því til haga að viðtal við ráðherra í sjónvarpsþætti er ekki sjálfkrafa merki um „hlutdræga umfjöllun.“

      Ráðherrar og fleiri óska oft eftir því að þurfa ekki að skipast á skoðunum við aðra í myndveri.

      Hvort orðið er við því, ræðst af ritstjórnarlegu mati hverju sinni, rétt eins og í gær. Margsinnis hefur koma ráðherra verið afþökkuð, þegar þeir hafa gert að skilyrði að skiptast ekki á skoðunum við stjórnarandstöðu eða aðra.

      Ríkisútvarpið er vettvangur ólíkra skoðana, það veit Steingrímur J. Sigfússon mætavel og reyndar manna best, enda eru fáir, ef nokkur, sem fenginn hefur verið jafn oft til að tjá sig um mál líðandi stundar og hann. Ríkisútvarpið og starfsmenn þess reyna ætíð að fjalla um mál af óhlutdrægni og tekst það oftast nær ágætlega, þó alltaf megi gott bæta. Viðtal við ráðherra táknar því ekki, þó Steingrímur haldi öðru fram, að Ríkisútvarpið bregðist skyldu sinni.

      Þórhallur Gunnarsson
      ritstjóri Kastljóss

    Ég er í öllum meginatriðum sammála því sem fram kemur í svari Þórhalls og hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta. Þó vil ég undirstrika að umsjónarfólk Kastljóss stóð í gær frammi fyrir til þess að gera einfaldri ritstjórnarlegri spurningu: Hvort er á þessum tímapunkti áhugaverðara fyrir áhorfendur Sjónvarpsins að hlýða á viðtal við fyrrverandi iðnaðarráðherra um þetta tiltekna málefni eða formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Ljóst var að ekki kæmu bæði fram í einum og sama þættinum vegna afstöðu ráðherrans. Niðurstaðan varð sem sé fyrrgreindi viðmælandinn.

    Að tala um að þetta sé „..niðurlægjandi..” fyrir Ríkisútvarpið , eða „…ofboðslegt að verða vitni að því að Ríkisútvarpið skuli þjóna valdinu með þessum hætti…” finnst mér sannast sagna vera broslega verðbólgin notkun á orðum.

    Virðingarfyllst,

    Páll Magnússon
    útvarpsstjóri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka