Steingrímur: Stjórnarandstaðan stilli sér upp sem valkosti

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs,
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, Kristinn Ingvarsson

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, segir einboðið að skoða þann kost, hvort stjórnarandstaðan hafi metnað til þess að stilla sjálfri sér upp sem skýrum valkosti gegn ríkisstjórninni.

Steingrímur sagði í fréttum Útvarpsins, að VG vilji láta á það reyna hvort hægt væri að ná samstöðu við hina stjórnarandstöðuflokkana um ákveðin lykilmál. Sagði hann að miðjuflokkar, sem reyni að koma sér undan því að svara með hverjum þeir vilji starfa, séu hlegnir útaf borðinu í öðrum löndum.

Fram kom á flokksráðsfundi VG í dag, að gert er ráð fyrir að landsfundur flokksins verði haldinn á fyrstu mánuðum næsta árs en ekki að hausti eins og venjan hefur verið, væntanlega þá í mars.

Í drögum að ályktunum, sem liggja fyrir fundinum, segir m.a. að lagskipting í samfélaginu hafi aukist stórlega og aukinn launa- og lífskjaramunur valdi vaxandi reiði, slíti sundur samstöðuna og rjúfi friðinn. Úr þessu verði að bæta og það án nokkurra tafa eigi ekki illa að fara.

„Vinstrihreyfingin – grænt framboð mun hafa úrbætur á þessu sviði sem eitt af aðalbaráttumálum sínum í komandi kosningum. Lausnin er fyrst og fremst fólgin í öflugu velferðarkerfi sem tryggir jafna og góða þjónustu fyrir alla og tekjujöfnunaraðgerðum í skattkerfinu um leið og einkavæðingar- og fákeppnisgróðaöflunum verði settar skorður. Hefja verður á nýjan leik kraftmikla baráttu fyrir öflugu samábyrgu velferðarkerfi og jafnlaunasamfélagi í anda þess besta sem þekkist á norræna vísu. Til þess þarf að skipta um ríkisstjórn, því með óbreyttri stjórnarstefnu munum við hrekjast sífellt fjær þeirri samfélagsgerð," segir í ályktunardrögunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert