Forráðamenn Eldhesta buðu þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum í reiðtúr um Hengilssvæðið í gær. Þeir sem þáðu boðið voru þingmennirnir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Björgvin Sigurðsson og Steingrímur J. Sigfússon auk Stefáns Jóns Hafsteins, stjórnarmanns í OR, og Dagbjartar Hannesdóttur, sveitarstjórnarmanns í Ölfusi. Veðrið lék við knapana og svæðið skartaði sínu fegursta.
"Það sem við vorum að reyna að gera í dag var að færa þá mynd sem við höfum af virkjanasvæðinu á Kolviðarhóli yfir á það svæði sem kallað er Ölkelduháls," segir Hróðmar Bjarnason, framkvæmdastjóri Eldhesta. Hálsinn hefur verið nefndur sem hugsanlegur virkjunarstaður en nú er svæðið nýtt í skipulagðar göngu- og hestaferðir. "Ef virkjun verður reist við Ölkelduháls er ekki lengur grundvöllur fyrir ferðamennsku á svæðinu," segir Hróðmar og kveður eðlilegra að gerðar séu langtímaáætlanir um nýtingu svæða sem þessa í stað þess að teknar séu ákvarðanir af skammsýni með stuttu millibili.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði ferðina hafa heppnast vel í alla staði og verið áhugaverða. Hún tekur undir það að stíga beri varlega til jarðar í virkjunarframkvæmdum á svæðinu. "Við eigum að láta tæknina vinna með okkur og fara varlega í því að fara inn á ný og óröskuð svæði," segir Ingibjörg og bindur vonir við að tilraunir með djúpborun skili auknum afköstum þeirra virkjana sem fyrir eru á svæðinu. Aðspurð segir Ingibjörg að ágætlega hafi farið á með þeim Steingrími J. Sigfússyni. "Það var hins vegar ekkert kaffi með í för, þannig að við létum okkur blávatnið nægja," segir Ingibjörg og skellir upp úr.