Ellefu ára piltur tekinn með fíkniefni

Ellefu ára drengur var nýlega tekinn með fíkniefni af lögreglunni í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er það nánast daglegur viðburður að lögreglan í Reykjavík hefur afskipti af fólki vegna fíkniefna. Eftir því sem best er vitað mun þetta vera einsdæmi að jafn ungt barn skuli vera tekið með fíkniefni en í fórum drengsins fundust kannabisefni.

Drengurinn var tvísaga þegar lögreglan ræddi við hann. Fyrst sagðist hann hafa fundið fíkniefnin og ráðgerði að selja þau en við haldlagningu þeirra fullyrti drengurinn að hann gæti útvegað sér meira af fíkniefnum.

„Rétt er að ítreka að hér er um einsdæmi að ræða enda heyrir það til algjörra undantekninga ef unglingar yngri en 15 ára koma við sögu í fíkniefnamálum. Þess má jafnframt geta að þeir sem eru kærðir í fíkniefnamálum eru hlutfallslega flestir á aldrinum 18-20 ára og hefur svo verið undanfarin ár," að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert