eftir Þóri Júlíusson
thorirj@mbl.is
HEILDARKOSTNAÐUR við byggingu höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur á Bæjarhálsi nam 5.800 millj. kr. um síðustu áramót en 1.800 milljónir fengust við sölu fyrri höfuðstöðva fyrirtækjanna sem voru sameinuð í OR. Þetta kemur m.a. fram í viðtali við Guðlaug Þór Þórðarson, stjórnarformann OR, í Morgunblaðinu í dag. Upphaflega var gert ráð fyrir að kostnaður við bygginguna á Bæjarhálsi næmi ekki meira en söluandvirði eldri eigna og samkvæmt því má gera ráð fyrir að bygging höfuðstöðva fyrirtækisins hafi farið um 4.000 milljónir fram úr uppaflegum áætlunum.
Þá hefur verið fjárfest fyrir um 5.000 milljónir í gagnaveitu Orkuveitunnar á verðlagi hvers árs. Fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir 8 til 10.000 millj. í viðbót, að sögn Guðlaugs Þórs, en þær áætlanir munu vera í endurskoðun. Hann segir jafnframt að kostnaður OR við kaup á öðrum fyrirtækjum nemi rúmlega 2.000 milljónum síðastliðin sex ár. "Það er búið að byggja þetta hús og það er stór og glæsileg bygging en það þýðir ekki að ræða það meira enda húsið komið til að vera og gott að allir starfsmenn séu á einum stað," segir Guðlaugur Þór um framtíð byggingarinnar á Bæjarhálsi. "Gallinn er kostnaðurinn en markmið nýs meirihluta er að nýta húsið sem best og opna það fyrir eigendum þess sem eru Reykvíkingar."