Femínistar álykta um Konukot

Femínistafélag Íslands skorar á formann Velferðarsviðs Reykjavíkur að endurskoða tillögur um að leggja niður Konukot, athvarf fyrir heimilislausar konur.

„Ástæðan fyrir því að Konukot var stofnað var sú að ekki reyndist mögulegt að tryggja öryggi kvenna í gistiskýlinu í Þingholtsstræti og telur stjórn félagsins það óásættanlegt að aftur verði horfið til fyrra ástands í þessum efnum. Reynslan af rekstri Konukots hefur verið góð og hafa starfsmenn lögreglunnar í Reykjavík og Kvennaathvarfsins talið Konukot hafa bætt til muna umhverfi og öryggi heimilislausra kvenna í borginni.

Við teljum það skyldu borgaranna að styðja við heimilislausar konur og útvega þeim skjól fyrir veðri og vindum, þar sem þær eiga ekki á hættu að verða fyrir ofbeldi. Velferðarsvið borgarinnar ber ábyrgð á velferðarþjónustu fyrir íbúa borgarinnar og teljum við að til að uppfylla skyldur sínar gagnvart borgurunum sé mikilvægt að bjóða heimilislausum konum öruggt skjól," að því er segir í ályktun Femínistafélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert