Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, greindi starfsmönnum NFS frá því á starfsmannafundi sem lauk nú fyrir stundu að fyrir mánaðarmót myndu uppsagnir eiga sér stað hjá fréttastöðinni. Að sögn Sólveigar Kr. Bergmann, trúnaðarmanns NFS, var fundurinn boðaður að beiðni trúnaðarmanna sem vildu vita hver framtíð stöðvarinnar verði. „Það var í rauninni fátt um svör hvað yrði annað en það að fyrir mánaðarmót verða uppsagnir hjá NFS,“ segir Sólveig og bætir því við að ekki verði um hópuppsagnir að ræða.
Sólveig segir ekki vitað á þessari stundu hversu margir né hverjir muni missa vinnuna. „Það hafa ekki verið teknar ákvarðanir um það hverjar breytingarnar verði með NFS, en klárlega að það verði einhverjar breytingar,“ segir Sólveig.
Hún segir óvissuástandið vera afar óþægilegt fyrir starfsmenn NFS og hún segir að Ari hafi lofað því að málið myndi skýrast á næstu dögum.
Sólveig bendir á að fólk verði að það hafa það í huga að það urðu forstjóraskipti frá því að NFS fór í loftið. „Forstjórinn fyrrum, Gunnar Smári [Egilsson], sagði að það væri pottþétt að það væri gert ráð fyrir því að NFS fengi tvö til þrjú ár til að sanna sig.“ Hún segir jafnframt að þegar NFS fór í gang hafi orðið mikil breyting hjá starfsmönnum fréttastofu Stöðvar 2. „Það voru margir sem kannski hugsuðu sér til hreyfings á þessum tíma og tóku þá ákvörðun að vera hjá þessu félagi út af þessari loforði Gunnars Smára,“ segir Sólveig.
Í opnu bréfi í Morgunblaðinu í dag bað Róbert Marshall, forstöðumaður NFS, eigendur 365 miðla að loka ekki fréttastöðinni áður en hún nær að sanna sig og benti hann á að það taki meira en 10 mánuði að sýna að viðskiptahugmyndin gangi upp.