Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarnfundi tvö frumvörp en í öðru þeirra er lagt til að hugtakið nauðgun verði rýmkað mjög frá því sem nú er og refsingar við slíku broti hertar upp í allt að 16 ára fangelsi. Einnig er kveðið á um refsingu fyrir samræði eða önnur kynferðismök við barn undir 14 ára aldri, að refsimörk verði þau sömu og fyrir nauðgun.
Rýmkun hugtaksins er á þá leið að nauðgun teljist „önnur kynferðisnauðung og misnotkun á bágu andlegu ástandi“ og því að þolandi „geti ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans". Við það muni brot þessi varða mun þyngri refsingu en nú er, fangelsi frá einu ári og allt að 16 árum í stað fangelsis allt að 6 árum.
Þá er lagt til að lögfest verði ákvæði um nokkur atriði sem verka skuli til þyngingar við ákvörðun refsingar fyrir nauðgun en eitt þeirra er ungur aldur þolenda. Þá er lagt til að ákvæði um refsingu fyrir að stunda vændi sér til framfærslu falli niður. Þess í stað verði lögfest ákvæði um refsinæmi þess að bjóða fram, miðla eða óska eftir kynmökum við annan mann í opinberum auglýsingum. Í frumvarpinu um meðferð sakamála er að finna tillögur um þrískiptingu ákæurvaldsins en þær byggjast á hugmyndum Boga Nilssonar, ríkissaksóknara, sem ráðuneytið beindi til réttarfarsnefndar. Ýmis ágreiningsefni eru þó óleyst.
Einnig er kveðið á um refsingu fyrir samræði eða önnur kynferðismök við barn undir 14 ára aldri, að refsimörk verði þau sömu og fyrir nauðgun. Ráðuneytið mun setja frumvörpin á heimasíðu sína til að hvetja til málefnalegra umræðna áður en dóms- og kirkjumálaráðuneytið tekur endanlega ákvörðun um í hvaða búningi þau verða lög fyrir Alþingi. Óskað er eftir ábendingum og umsögnum fram til 1. nóvember 2006.