Byrja á að safna vatni í Hálslón í næstu viku, en þá reiknar Landsvirkjun með að vatnsrennsli Jökulsár á Dal verði undir nauðsynlegum mörkum til að vatnssöfnunin fari nægilega hægt af stað.
Undirbúningsvinnu er nánast lokið og stíflur orðnar nægilega háar til að hefja vatnssöfnun, þ.m.t. hin steypta vatnskápa Kárahnjúkastíflu. Lónið verður að flatarmáli 57 ferkílómetrar og 2.350 milljónir rúmmetra þegar það er fullt. Þegar búið er að renna loku fyrir hjáveitugöng þau sem Jökla hefur runnið um í sveig fram hjá Kárahnjúkastíflu fer að safnast vatn í lónstæðið. Lokum verður og rennt fyrir aðrennslisgöngin, sem liggja frá lóninu, um Fljótsdalsheiði til stöðvarhúss virkjunarinnar í Fljótsdal, þegar lónið tekur að fyllast.
Á því 57 ferkílómetra svæði sem Hálslón mun þekja þegar það er fullt, eru auk gróðurlendis þekkt burðar- og farsvæði hreindýra auk fornminja frá því um 950, sem hafa verið rannsakaðar og skrásettar.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.