Ómar Ragnarsson kallar eftir þjóðarsátt um Kárahnjúkavirkjun

Ómar Ragnarsson, fréttamaður hjá Sjónvarpinu, boðaði til blaðamannafundar í dag þar sem hann greindi frá því að héðan í frá muni hann taka afdráttarlausa afstöðu í umhverfismálum og af þeim sökum muni hann framvegis ekki fjalla um slík málefni í fréttatíma sjónvarpsins. Ómar kallaði jafnframt eftir þjóðarsátt varðandi Kárahnjúkavirkjun og að íslenska þjóðin stöðvi eyðileggingu náttúru landsins.

Hann sagði hinsvegar ljóst að þjóðin stæði ekki fyrir auðveldri lausn í þessu máli, enda skiptist menn í tvær andstæðar fylkingar. Aðspurður um viðbrögð við ákvörðun sinni þá segist hann eiga von á öllu, bæði góðum viðbrögðum sem og slæmum.

Á fundinum las Ómar upp úr áttblöðungi sem mun fylgja sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem ber heitið „Íslands þúsund ár“. Þar vísaði hann til Sigríðar Tómasdóttur frá Brattholti sem andæfði virkjun Gullfoss á síðustu öld.

Ómar sagði að Kárahnjúkavirkjun muni hafa meiri óafturkræf neikvæð umhverfisáhrif en virkjun Gullfoss gæti haft. Hann spurði: „Þjóðin þarf því að spyrja sjálfa sig hvernig hún geti staðið að framkvæmd á borð við Kárahnjúkavirkjun en jafnframt dáð Sigríði í Brattholti.

Ómar fór víða við í máli sínu og honum til stuðning var Bubbi Morthens sem tók eitt lag á fundinum. Áður en hann hóf upp raust sína sagði hann að Ómar væri: „Sómi lands og þjóðar, sverð og skjöldur“. Bubbi söng síðan í framhaldinu um „Góðan straum í 100 ár“.

Ómar var spurður á fundinum hvort hann væri að íhuga að fara í framboð. Hann svaraði því til að hann væri til í allt og spurði svo: „Af hverju er ekki til þverpólitískt umhverfisframboð?“ Hann segir að barátta fyrir þjóðmálum hafi blundað í honum frá því að hann var lítill drengur, en að nú væri svo komið að hann tæki opinbera afstöðu í málinu.

Ómar segist ætla að halda áfram að starfa fyrir fréttastofu Sjónvarpsins en sú ákvörðun hafi verið tekið að hann fjalli ekki um umhverfismál. Hann sagðist hafa rætt málin við yfirmenn sína á stöðinni og að á milli þeirra ríkti fullt traust.

Á fundinum benti Ómar á að „íslensk stjórnvöld hefðu lagt sig fram í áratugi að fá erlenda fjárfesta til virkjanaframkvæmda og gefa þyrfti því jafnlangan frest til að sjá hvort hægt væri að laða erlenda fjárfesta til stofnunar þjóðgarðs og nýtingar ósnortinnar náttúru þar sem nú á að verða virkjunarsvæði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert