Ráðning sviðsstjóra Velferðarsviðs óásættanleg

Stjórn Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa fagnar ákvörðun heilbrigðisráðherra um að stíga skref til framfara í geðheilbrigðismálum barna og unglinga. Um þetta var ályktað á fundi stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa en einnig að óásættanlegt sé að gengið sé framhjá sérfræðiþekkingu á sviði velferðarmála við ráðningu sviðsstjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

„Stjórn Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa fagnar ákvörðun heilbrigðisráðherra um að stíga skref til framfara í geðheilbrigðismálum barna og unglinga. Stækkun Barna- og unglingageðdeildar (BUGL) er löngu tímabær og ánægjulegt að efla eigi grunnþjónustu við börn og fjölskyldur þeirra með aukinni meðferðarþjónustu eins og gert var með stofnun meðferðarteymis í Grafarvogi.

Stjórn Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa vill minna á mikilvægi þverfaglegs samstarfs og nauðsyn þess að fjölga stöðum félagsráðgjafa innan heilsugæslunnar enda er samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu (nr. 97/1990) félagsráðgjöf, þ.m.t. fjölskyldu og foreldraráðgjöf, ein aðalgrein heilsuverndar.

Stjórn Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa skorar á heilbrigðisráðherra að nota heildarsýn við uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga og nýta sér þekkingu og reynslu af þverfaglegu samstarfi eins og þá sem hefur t.d. skilað góðum árangri á BUGL og heilsugæslunni í Grafarvogi", að því er segir í ályktun stjórnar.

Óásættanleg ráðning sviðsstjóra Velferðarsviðs

Ályktun Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa um ráðningu sviðstjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

„Yfir 100 manna félagsfundur Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa, haldinn 22. september 2006 telur óásættanlegt að gengið sé framhjá sérfræðiþekkingu á sviði velferðarmála við ráðningu sviðsstjóra Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Sviðsstjóri Velferðarsviðs er faglegur yfirmaður velferðarþjónustu í borginni og mótar stefnu til framtíðar í þessum málaflokki. Um stöðuna sóttu félagsráðgjafar sem hafa meistara- og doktorspróf á sviði velferðarmála auk umtalsverðrar stjórnunarreynslu og sérhæfingar á því sviði. Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa telur það óviðunandi að gengið sé framhjá faglegri þekkinu þegar ráðinn er faglegur yfirmaður velferðarmála í Reykjavík og skorar á borgarstjóra að endurskoða ráðninguna.

Stéttarfélags íslenskra félagsráðgjafa mun aðstoða sína félagsmenn við að leita réttar síns í þessu máli," að því er segir í ályktun fundar stéttarfélags félagsráðgjafa.

Á fundi borgarráðs í gær var samþykkt með fjórum atkvæðum að ráða Stellu Víðisdóttur, viðskiptafræðing, í starf sviðsstjóra velferðarsviðs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert