Tuttugu sagt upp hjá NFS

Á stjórnarfundi Dagsbrúnar í dag var ákveðið að breyta áherslum í rekstri NFS. Verður lögð meiri áhersla á netmiðilinn visir.is og um leið lækka tilkostnað í rekstri. Stöðugildi í starfsmannahaldi NFS verða u.þ.b. 55 eftir breytingarnar en auk þess koma lausráðnir starfsmenn og verktakar að þessari starfsemi. 20 starfsmönnum er sagt upp störfum, þar af 7 frétta- og dagskrárgerðarmönnum.

Í fréttatilkynningu frá 365 segir að á stjórnarfundi Dagsbrúnar sem haldinn var fyrr í dag voru teknar ákvarðanir um breyttar áherslur í rekstri Nýju fréttastofunnar, NFS. Markmiðið með breytingunum er annars vegar að lækka tilkostnað og hins vegar að leggja stóraukna áherslu á þann þátt sem netmiðillinn visir.is leikur í fréttaþjónustu NFS; hvort sem um er að ræða ritaðan texta, talmál, lifandi myndir eða ljósmyndir," að því er segir í fréttatilkynningu.

Fréttastjóri NFS verður sem fyrr Sigmundur Ernir Rúnarsson og aðstoðarfréttastjórar verða Þór Jónsson sem mun einbeita sér sérstaklega að sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 og Þórir Guðmundsson, sem mun stýra fréttaflutningi NFS á visir.is og Bylgjunni. Elín Sveinsdóttir verður framleiðslustjóri NFS. Sjónvarpsútsendingar NFS á sérstakri rás verða aflagðar en fréttir fluttar á hefðbundnum tímum og tíðnisviðum Bylgjunnar og Stöðvar 2 hér eftir sem hingað til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert