Vísir að íslenskri leyniþjónustu eða öryggislögregludeild var starfræktur hér á landi frá því skömmu fyrir seinni heimsstyrjöldina. Voru það áhyggjur ráðamanna af uppgangi nasista og kommúnista sem réðu mestu um stofnun þjónustunnar, svo og reynsla þeirra af framgöngu kommúnista á fjórða áratugnum, meðal annars Gúttóslagnum svonefnda þegar 19 af 28 lögreglumönnum lágu sárir og óvígir eftir átök við æstan múg vopnaðan bareflum.
Þetta kemur meðal annars fram í grein eftir Þór Whitehead, prófessor, í nýju tölublaði af Þjóðmálum, undir heitinu Smáríki og heimsbyltingin, þar sem sagt er frá viðbrögðum íslenska ríkisins við hættunni sem lýðræðisskipulaginu stafaði af byltingarstarfsemi og ofbeldisverkum á tímum kreppu, heimsstyrjaldar og kalda stríðsins.
Fram kemur að Hermann Jónasson, þáverandi forsætisráðherra, fól lögreglustjóranum í Reykjavík, Agnari Kofoed-Hansen, að stofna „eftirgrennslanadeild“. Það verkefni var hjá útlendingaeftirliti lögreglunnar næstu tíu árin, en þá beitti Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra, sér fyrir stofnun strangleynilegrar öryggisþjónustudeildar hjá lögreglustjóraembættinu í nánum tengslum við dómsmálaráðuneytið.
Árni Sigurjónsson, sem síðar varð yfirmaður Útlendingaeftirlitsins, starfaði þá þegar að öryggismálum og Sigurjón Sigurðsson, sem þá var orðinn lögreglustjóri, valdi auk þess Pétur Kristinsson úr hópi lögreglumanna til þessara starfa.
Sá Pétur um gagnasöfnun og spjaldskrár en Árni um aðgerðir og eftirlit. Einn maður bættist við síðar og að auki var hægt að kalla til 1–2 menn úr lögregluliðinu í verkefni.
Sjá bls. 32-33 í Morgunblaðinu í dag.