Jarðgöng undir Vaðlaheiði í Svalbarðsstrandarhreppi og Þingeyjarsveit þar sem hringvegurinn myndi liggja eru ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar.
Greið leið ehf. sendi erindi til Skipulagsstofnunar en í því kemur fram að heildarlengd ganganna verði 7,4 kílómetrar og að hringvegurinn muni styttast um 16 kílómetra með tilkomu þeirra.
Um einkaframkvæmd verði að ræða og veggjald yrði innheimt af vegfarendum sem myndu nýta sér göngin.
Í niðurstöðum Skipulagsstofnunar kemur m.a. fram að óhjákvæmilega verði nokkrar ásýndarbreytingar á svæðinu beggja vegna Vaðlaheiðar vegna gangamunna, skeringa og umfangsmikilla fyllinga. Stofnunin telur þó að hugmyndir um landmótun og frágang, sem kynntar hafa verið, séu til þess fallnar að draga úr þessum ásýndarbreytingum en leggur áherslu á mikilvægi samstarfs við Umhverfisstofnun, Vegagerðina og landeigendur við frágang og landmótun. Þá kemur og fram að landareignir beggja vegna gangamunnanna muni skerðast en framkvæmdaaðili muni greiða bætur fyrir það land sem raskast.