Undirbúningsfélag stofnað um Suðurlandsveg

Suðurlandsvegur við Hveradali.
Suðurlandsvegur við Hveradali. mbl.is/Loftmyndir ehf.

Sjóvá, Sveitarfélagið Árborg, Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grímsnes- og Grafningshreppur, Mjólkursamsalan og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga undirrituðu í dag samkomulag um stofnun Suðurlandsvegar ehf, en markmið félagsins er að stuðla að umræðu um flýtingu Suðurlandsvegar og benda á nýja valkosti í því samhengi. Hlutafé félagsins er tíu milljónir króna.

Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár, sagði af þessu tilefni að það væri ánægjulegt fyrir fyrirtækið að koma að samstarfi við þennan hóp þar sem væri mikill áhugi fyrir umbótum og nýjum leiðum í vegamálum. „Þær hugmyndir sem ræddar hafa verið á þessum vettvangi eru til þess fallnar að stuðla að aukinni samgöngubót og munu vafalaust fækka slysum, sem er markmið okkar allra,“ sagði Þór.

Stefanía Katrín Karlsdóttir, bæjarstjóri Árborgar, sagði að vegna álags sem yrði sífellt meira væri tvöföldun Suðurlandsvegar ein meginforsenda þess að fækka slysum og tjónum og auka samkeppnishæfni Suðurlands. „Tvöföldun Suðurlandsvegar með einkaframkvæmd er valkostur sem vert er að skoða af alvöru,“ sagði Stefanía.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, sagði það sameiginlegt verkefni bæði Sunnlendinga sem og íbúa höfuborgarsvæðisins að tryggja öryggi og bæta samgöngur á þessu svæði. „Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar er einhuga í afstöðu sinni til tvöföldunar Suðurlandsvegar um Hellisheiði og við hvetjum ríkisvaldið til að taka jákvætt í hugmyndir hins nýja félags um hraða og örugga uppbyggingu vegarins,“ sagði Aldís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert