Bandaríkin munu verja Ísland gegn vá með hreyfanlegum herstyrk

Geir H. Haarde forsætisráðherrra.
Geir H. Haarde forsætisráðherrra.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi fyrir skömmu að samkomulag hafi náðst um að Bandaríkin verji Ísland ef með þarf með hreyfanlegum herstyrk samkvæmt sérstakri áætlun. Allur hernaðarmáttur Bandaríkjanna standi þar að baki og brugðist verði við vá eftir eðli hennar. Áætlun um þetta sé leynileg, varnaráætlun þar sem kveðið er á um viðbrögð við vá með ýmsum hætti. Hreyfanlegur herstyrkur sé þar lykilatriði.

Geir sagði að utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, muni á næstunni undirrita skilasamning um eignir varnarliðsins og annar hluti málsins verði undirritaður í Washington eftir nokkrar vikur. Geir segir málið þríþætt, í fyrsta lagi varnarsamning, í öðru lagi skilasamning og þriðja lagi samkomulag um afhendingu bandarísks búnaðar sem nauðsynlegur sé fyrir rekstur flugstöðvarinnar í Keflavík.

Geir sagði Bandaríkjastjórn vilja stuðla að því að færsla flugstöðvarinnar verði snurðulaus til að rask verði sem minnst fyrir flugsamgöngur á Íslandi. Íslendingar fái ýmsan búnað leigðan til að reka flugstöðina. Gróft á litið hafi verið tvö meginmarkmið með viðræðunum, í fyrsta lagi að tryggja varnir landsins og öðru lagi að skila landi og mannvirkjum. Hið síðarnefnda sé með svipuðum hætti og gert hafi verið í öðrum löndum.

Ísland mun taka að sér og greiða fyrir niðurrif mannvirkja og hreinsun á svæðum sem tilheyrðu Bandaríkjaher. Hvað varðar umhverfismál sé umfang mengunar vegna veru Varnarliðsins þekkt, en heilsu manna stafi engin hætta af mengun þaðan. Þar sé jarðvegsmengun, grunnvatnsmengun og ofan- og neðanjarðarmannvirki sem hægt sé að nota. Jarðvegsmengun er að mestu vegna olíuleka í gegnum áranna rás, mengunaróhöpp sem orðið hafa á svæðinu hafi verið bætt eins og kostur er.

Olíumengun þar ógni ekki lífríki eða heilsu manna. PCB-mengun sé einhver. Grunnvatn á varnarsvæðum sé víða mengað en vatnsból sem notuð eru á Reykjanesi séu ekki í hættu. Allir haugar og urðunarstaðir hafi verið skilgreindir og merktir og asbest fjarlægt úr byggingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert