Stefnt að því að hleypa í Hálslón á fimmtudag

Kárahnjúkastífla.
Kárahnjúkastífla. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Arnalds, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar um Kárahnjúka, segir að fylling Hálslóns muni hefjast árdegis næsta fimmtudag, að öllum skilyrðum uppfylltum. Tæknilegum undirbúningi sé lokið og vatnið í Jöklu skaplegt. Ekkert sé því til fyrirstöðu nú að hefja fyllingu lónsins. Fjölmiðlar munu fá aðgang að lokuðu vinnusvæði þar sem hægt verður að fylgjast með þessum viðburði, en útsýnispallur fyrir almenning við Sandfell verður opinn og aðgengilegur eins og venjulega. Þaðan sést vel yfir stífluna.

Sigurður segir að vegur hafi verið lagður inn með lóninu sem menn geti farið um og fylgst með framvindu mála en ekki víst að hann verði opinn yfir háveturinn. „Það fyllist nokkuð hratt næst stíflunni fyrst af því rúmmálið þar er lítið en eftir það gengur þetta mjög hægt og mun ganga mjög hægt í vetur," segir Sigurður. Lónið muni fyllast til hálfs á hæðina í vetur, sem sé þó aðeins lítill hluti af rúmmáli þess, en það fyllist síðan að fullu næsta sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert